„Hann er ungur í starfi þannig hann er bara rétt að byrja en hann er auðvitað búinn að fara í leitir svona almennt og vinna það vel,“ segir Heiðrún Huld Finnsdóttir, lögreglumaður á Egilsstöðum, um lögregluhundinn Skara sem er eini lögregluhundurinn á Austurlandi.
Skari er af gerðinni English Springer Spaniel og er tveggja og hálfs árs gamall. Byrjaði hann að vinna hjá lögreglunni á Austurlandi síðasta sumar sem löggæslu- og fíkniefnaleitarhundur og er Heiðrún Huld umsjónarmaður hans.
„Lögreglustjórinn á Austurlandi á hann en ég er alltaf með hann og ber ábyrgð á honum. Þegar hann er ekki í vinnunni þá er hann bara heimilishundurinn minn,“ segir Heiðrún í samtali við mbl.is.
Segir hún stærsta verkefni þeirra félaga að fara í ferjuna Norrænu einu sinni í viku er ferjan siglir þar í gegn.
Lýsir hún Skara sem algjöru tryllitæki og segir að um sé að ræða mjög skemmtilegan vinnufélaga.
„Hann er fjörugur, ótrúlega ljúfur og góður. Orkubolti og gleðisprengja. Hann er svona tryllitæki í vinnunni. Ég kalla hann alltaf tryllitækið mitt,“ segir Heiðrún og bætir við.
„Hann er geggjaður og mjög öflugur.“
Eins og fyrr hefur komið fram er Skari eini lögregluhundurinn á Austurlandi en segist Heiðrún vita til þess að hunda sé einnig að finna hjá Lögreglunni á Akureyri og á Sauðárkróki.
„Þeir eru því miður ekki margir en við erum svona að reyna að vekja athygli á þeim. Þetta eru geggjuð vinnutæki.“
Skari er um þessar mundir að nýta krafta sína á listahátíðinni LungA á Seyðisfirði þar sem lokakvöld hátíðarinnar fer fram.
Segir Heiðrún að hún og Skari séu þá einnig að fara á Þjóðhátíð í ár, en þar eru fíkniefnaleitarhundar mikið notaðir.
Hundaunnendur og áhugasamir geta því fundið Skara í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina en skulu þó passa að hafa ekkert vafasamt í vösum sínum, ellegar er Skara að mæta.