Erlendir ferðamenn grunaðir um meiriháttar líkamsárás

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír erlendir ferðamenn voru handteknir í nótt grunaðir um meiriháttar líkamsárás í miðborg Reykjavíkur, en árásarþoli hlaut tannbrot eftir hnefahögg í andlitið.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá segir að fíkniefni hafi fundist á tveimur hinna handteknu og var hald lagt á efnin. Talið er að um kókaín sé að ræða. Mennirnir voru svo vistaðir í fangageymslu og árásarþola var leiðbeint um aðhlynningu og næstu skref málsins.

Reyndi að skella hurðinni á lögreglumennina

Lögreglan handtók karl og konu í íbúð sinni vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna. Lögreglumenn fundu marijúanalykt koma frá íbúðinni og könnuðu málið. Þegar lögreglumennina bar að og kynntu manninum ástæðu afskiptanna reyndi hann að skella hurðinni á þá og þannig koma sér undan.

Lögreglumennirnir ýttu hurðinni upp og handtóku manninn, en hann veitti talsverða mótspyrnu. Úr varð að lögreglumenn gerðu húsleit í íbúðinni með samþykki húsráðanda.

Við leitina fannst talsvert magn af fíkniefnum, bæði ætluðu maríjúana og hvítum efnum, auk peningaseðla, sem er ætlaður ágóði af sölu fíkniefna.

Starfsmaður kærður og sagt upp störfum fyrir stuld

Auk þess vistaði lögreglan mann í fangageymslu vegna þess að hann gekk berserksgang með vínflösku í miðbæ Reykjavíkur. Maðurinn var æstur og ógnandi og hlýddi engum fyrirmælum lögreglunnar.

Loks var starfsmaður verslunar grunaður um að stela vörum úr versluninni að andvirði 865 kr., en sá hafði áður stolið úr versluninni. Starfsmanninum var sagt upp á staðnum og þá var kæra lögð fram á hendur honum vegna þjófnaðarins, segir að lokum í dagbók lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert