Helgi svarar Oddi: Dylgjur og atvinnurógur

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari og Oddur Ástráðsson lögmaður.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari og Oddur Ástráðsson lögmaður. Samsett mynd/Kristinn Magnússon/Aðsend

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sakar Odd Ástráðsson lögmann um dylgjur og atvinnurógur. Hann gagnrýnir Odd fyrir að saka sig um hatursorðræðu og blandar Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra í umræðuna en hún er móðir Odds.

Þetta kemur fram í facebook-færslu Helga þar sem hann svarar Oddi.

„Að halda því fram eins og þessi lögmaður gerir að kona frá múslímaríki sem vilji kæra nauðgun geti ekki treyst því að hún fái lög boðna meðferð sinna mála hjá ákæruvaldinu vegna afstöðu minnar er ekkert minna en dylgjur og atvinnurógur,“ ritar Helgi.

Helgi hefur rætt við fjölmiðla vegna máls Mohamad Kourani sem hefur haft í hótunum við Helga og fjölskyldu hans. Kourani var dæmdur í vikunni í átta ára fangelsi og gagnrýndi Oddur Helga í fjölmiðlum fyrir orðræðu hans sem hann sagði ala á sundrung og fordómum.

Sonur Svandísar Svavarsdóttur

„Þessi lögmaður, sem mun vera sonur Svandísar Svafarsdóttur ráðherra VG, virðist kippa í kynið varðandi afstöðu til innflytjendamála og mun, samkvæmt því sem mér er sagt, hafa afkomu sína að nokkru eða öllu undir vinnu fyrir eða í kring um innflytjendamál þar á meðal í þágu Solaris sem berst hörðum höndum fyrir nær óheftum aðgangi fólks frá miðausturlöndum að Íslandi,að því er virðist án þess að láta sig varða bakgrunn þess fólks og hugsanleg tengsl við öfga- og hryðjuverkasamtök,“ ritar hann.

„Kippir honum því nokkuð í kynið þegar kemur að viðhorfum til innflytjendamála. Ef hann er að leita að vanhæfni þá er hann að fara yfir lækin eftir vatninu.“

Þjóðin verði að svara fólki sem þaggi niður umræðuna

Helgi skrifar að þjóðin þurfi að svara fólki sem í hvert sinn sem einhver er ósammála þeim grípa til gífuryrða um hatursorðræðu eða kynþáttahatur í því skyni að þagga niður umræðu sem er ekki í samræmi við þeirra hagsmuni.

„Flokkur móður hans VG reyndi í þessu skyni að koma á heilum lagabálki á síðasta þingi um hvað megi segja og hvað ekki byggt á þeirra eigin pólitísku mælikvörðum. Fásinna sem George Orwell ritaði um bók sinni 1984 fyrir margt löngu og enginn trúði að gæti orðið raunveruleiki. Segir það meira en flest orð um frændgarð og bakgrunn þessa lögmanns,“ skrifar Helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka