Leitaði föður síns í kolröngu landi

Grímur Atlason reyndist vera hálfbreskur.
Grímur Atlason reyndist vera hálfbreskur. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar og tónlistarmaður, komst að því 41 árs gamall að hann væri ekki blóðskyldur föður sínum. Það kom róti á hann.

„Þegar þetta mál kom upp var eins og allt félli í skorður, og ég uppgötvaði að þetta var það púsl sem vantaði, hvaðan ég kæmi,“ segir Grímur sem byrjaði strax að leita blóðföður síns. „Það er eitthvað náttúrulegt eða mannlegt í fólki að vilja vita hvaðan það kemur.“

Leit hans á Íslandi bar ekki árangur. Grímur var með fáeinar vísbendingar en vissi ekkert fyrir víst og allar enduðu þær í blindgötu. „Ég vissi það ekki þá, en ég var að leita í kolröngu landi.“

Árið 2013 dó móðir Gríms. „Tveimur árum síðar, árið 2015, ákvað ég að fara í annað DNApróf hér á landi og fékk þær niðurstöður að ég væri hálfbreskur. Þá hugsaði ég með mér að þetta væri alveg vonlaust, mamma dáin og enginn vissi neitt. Þetta hafði mikil áhrif á mig en ég gat ekkert gert,“ segir Grímur sem leiddist þó út í hálfgerða rannsóknarvinnu.

Ráðgátan leystist ekki

Átta ár liðu og ráðgátan um föður Gríms leystist ekki. En í fyrra fór loks að draga til tíðinda. „Ég var í Bandaríkjunum í nóvember 2023 og ákvað að taka enn eitt DNA-prófið. Þetta var heimapróf þar sem hægt er að leita að ættingjum sínum.“ Grímur segir væntingar sínar ekki hafa verið miklar. Þann 16. desember fékk Grímur þó fréttir sem áttu eftir að breyta atburðarásinni, og lífi hans til frambúðar. „Ég vaknaði snemma morguns, mun fyrr en ég er vanur. Ég kíkti í símann og þá biðu mín niðurstöður úr þessu DNA-prófi. Í gegnum það fundust tveir ættingja minna sem voru enn á lífi, og upplýsingar um þá. Þeir voru þremenningar mínir. Annar bjó í Kanada og hinn í Nottingham. Ég bjóst ekki við að þessar niðurstöður yrðu svona nákvæmar,“ segir Grímur.

„Það sem meira er þá voru þessir tveir einstaklingar ekkert skyldir, svo eina tenging þessa fólks hlaut að vera í gegnum afa minn og ömmu, foreldra pabba míns. Þetta var mikil uppgötvun.“ Grímur kannaði tengsl sín við þessa tvo ættingja og fór að skoða fleiri skyldmenni. „Það var ótrúlegt að þetta væri fyrsta tilraun mín og hún skilaði því að ég fann nafn langafa míns. Hann hafði fæðst í Wales, eignast þar börn og flutt síðan til Kanada. Ég gat þrætt mig áfram og fann að lokum nöfn afa míns og ömmu. Ég fór að tengjast fólki sem sendi mér myndir og fann að lokum pabba minn, David Gwynn Parsons. Ég fékk einnig að vita að hann hefði dáið árið 1981.“

Bræðurnir tóku honum vel

Grímur hætti þó ekki leitinni og núna er hann kominn í samband við tvo hálfbræður sína í Bretlandi sem hafa tekið honum vel.

„Við bræðurnir erum að byggja upp samband okkar, en það er alla vega samband til staðar og ég er þakklátur fyrir það,“ segir Grímur. Hann nefnir að þó svo hann hafi fengið vissa niðurstöðu við að finna pabba sinn þá hafi það einnig markað annað upphaf. „Leiðin var mjög löng og það tók langan tíma að finna svörin þótt það hafi tekist að lokum. Ég skil nú hvað það var sem vantaði.“

Ítarlega er rætt við Grím í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert