Segja Helga hafa gert sig vanhæfan

Sema Erla Serdaroglu, formaður Solaris og Helgi Magnús vararíkissaksóknari. Myndin …
Sema Erla Serdaroglu, formaður Solaris og Helgi Magnús vararíkissaksóknari. Myndin er samsett. Ljósmynd/Aðsend, mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjálparsamtökin Solaris hvetja ríkissaksóknara til þess að taka ummæli Helga Magnúsar vararíkissaksóknara, sem samtökin telja að ýti undir fordóma og hatur í garð flóttafólks, til athugunar.

Greint var frá því fyrr í dag að Helgi hefði ritað færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sakaði Odd Ástráðsson um dylgjur og atvinnurógur. Hafði Oddur áður sakað Helga um hatursorðræðu.

„Þessi lögmaður, sem mun vera son­ur Svandís­ar Svafars­dótt­ur ráðherra VG, virðist kippa í kynið varðandi af­stöðu til inn­flytj­enda­mála og mun, sam­kvæmt því sem mér er sagt, hafa af­komu sína að nokkru eða öllu und­ir vinnu fyr­ir eða í kring um inn­flytj­enda­mál þar á meðal í þágu Solar­is sem berst hörðum hönd­um fyr­ir nær óheft­um aðgangi fólks frá miðaust­ur­lönd­um að Íslandi,að því er virðist án þess að láta sig varða bak­grunn þess fólks og hugs­an­leg tengsl við öfga- og hryðju­verka­sam­tök,“ segir Helgi í færslu sinni.

Fordæma ummælin

Samtökin Solaris hafa nú sent frá sér tilkynningu þar sem ummælin eru harðlega gagnrýnd.

„Með ummælum sínum gefur vararíkissaksóknari til kynna að Solaris samtökin tengist með einhverjum hætti einstaklingum sem hafa tengsl við öfga- og hryðjuverkasamtök og að fólk sem hingað kemur í leit að skjóli og vernd tengist upp til hópa slíkum hópum,“ segir í tilkynningu samtakanna.

Segja þau þessar alvarlegu ásakanir vararíkissaksóknara ekki eiga við nokkur rök að styðjast og þau beri að fordæma.

Helgi hafi gert sig vanhæfan í starfi

Nefna samtökin einnig að einstaklingur sem starfi hjá æðsta handhafa ákæruvalds á Íslandi geti ekki leyft sér að dreifa rógburði um einstaklinga og hjálparsamtök og ljúga upp á þau tengslum við öfga- og hryðjuverkasamtök.

„Sá hinn sami hefur með því gert sig vanhæfan í öllu starfi sem snýr að umræddum málaflokkum,“ segja samtökin.

Tekur stjórn Solaris undir með þeim sem hafa bent á að orðræða Helga sé til þess fallin að rýra traust til embættis og ýta undir fordóma og hatur í garð fólks á flótta, sérstaklega fólks frá Miðausturlöndum.

„Við hvetjum ríkissaksóknara til þess að taka þessi og önnur nýleg og forkastanleg ummæli Helga Magnúsar, vararíkissaksóknara, til athugunar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert