Segja KÍ hafa leitt skólakerfið í öngstræti

„Í stað áframhaldandi innleiðinga á tillögum Kennarasambandsins ættu stjórnvöld að …
„Í stað áframhaldandi innleiðinga á tillögum Kennarasambandsins ættu stjórnvöld að gjalda varhug við frekari afskiptum af hálfu þess,“ segir í umsögninni.

Leyndarhyggja mennta- og barnamálaráðuneytisins í tengslum við niðurstöður PISA og samræmdra könnunarprófa stangast á við upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Þetta er mat Viðskiptaráðs Íslands, sem segir leyndarhyggju ráðuneytisins flækja fyrir umbótastarfi og aðhaldi af hálfu einstakra skóla, sveitarfélaga, foreldra og almennra borgara.

Birtist þetta mat í umsögn ráðsins í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem kynnt eru áform mennta- og barnamálaráðuneytisins um breytingu á lögum um grunnskóla.

Í umsögninni segir Viðskiptaráðið að ráðuneytið hafi eftirlátið einum hagsmunaaðila, Kennarasambandi Íslands (KÍ), mótun stefnu og aðgerða í íslensku grunnskólakerfi.

Segir ráðið KÍ hafa talað fyrir leyndarhyggju og að stjórnvöld ættu að gjalda varhug við frekari afskiptum af hálfu sambandsins.

Mælingar nauðsynlegar

„Það eru margreynd sannindi að til að bæta hlutina þá þarf að mæla þá. En þessi sannindi virðast ekki eiga upp á borðið hjá menntamálayfirvöldum,“ segir í umsögn ráðsins, sem mbl.is fjallaði um í gær.

„Ef enginn hefur aðgang að gögnum um árangur af starfi íslenskra grunnskóla er ómögulegt að bæta störf þeirra. Aðhald með birtingu opinberra gagna er sérstaklega mikilvægt í einsleitu og miðstýrðu kerfi eins og íslenska grunnskólakerfinu, þar sem langflestir skólar eru reknir af hinu opinbera og samkeppni á milli þeirra er lítil.“ 

Lögfest meðmæli athugasemdalaust

Árið 2018 skipaði Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, starfshóp um framtíðarstefnu um samræmt námsmat. 

Viðskiptaráðið vekur athygli á að Kennarasamband Íslands hafi verið eini hagsmunaaðilinn með fulltrúa í hópnum, ef frá eru taldir opinberir aðilar og félagasamtök sem fjármögnuð eru að mestu með opinberu fé.

„Raunar átti Kennarasambandið tvo fulltrúa í starfshópnum, á meðan aðrir hagsmunaaðilar áttu engan.“

Viðskiptaráðið segir KÍ hafa talað afdráttarlaust fyrir leyndarhyggju og afnámi samræmdra árangursmælikvarða í grunnskólakerfinu.

„Stjórnvöld hafa síðan lögfest meðmæli sambandsins athugasemdalaust, og þessi nýjustu áform eru þar engin undantekning.“

Þröngt sjónarhorn

Ráðið segir niðurstöður starfshópsins bera greinilega merki um þröngt sjónarhorn KÍ.

Til dæmis eigi prófin í nýja námsmatinu, svokölluðum matsferli sem á að koma í stað samræmdra könnunarprófa, að vera að mestu valkvæð. Þá á það að falla í hlut kennara eða stjórnenda skóla að ákveða hvort þau verði lögð fyrir.

Telur starfshópur ráðuneytisins það einnig til ókosta að fjölmiðlar geti fjallað um árangur af skólastarfi.

„Það geti leitt til samkeppni á milli skóla, og „afleiðingar þessarar samkeppni geta verið alvarlegar“. Til að fyrirbyggja samkeppni leggur starfshópurinn til breytingu á upplýsingalögum þannig að sundurliðun niðurstaðna prófa niður á skóla verði óheimil,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.

Hlutverk stjórnvalda að gæta hagsmuna barna

Í umsögninni segir þá einnig að stefnumörkun af hálfu KÍ hafi leitt íslenskt grunnskólakerfi í öngstræti.

„Í stað áframhaldandi innleiðinga á tillögum Kennarasambandsins ættu stjórnvöld að gjalda varhug við frekari afskiptum af hálfu þess. Það er lögboðið hlutverk stjórnvalda að gæta hagsmuna grunnskólabarna og ótækt að þeirri skyldu sé úthýst til eins hagsmunaaðila.

Stjórnvöld ættu að hafa í huga afleiðingar stefnumörkunar Kennarasambandsins hingað til næst þegar sambandið leggur til lagabreytingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka