Síðasti dagur Lunga

Listahátíðin Lunga á Seyðisfirði verður kvödd í kvöld með sérstakri …
Listahátíðin Lunga á Seyðisfirði verður kvödd í kvöld með sérstakri kveðjuathöfn. Ljósmynd/Aðsend

Í dag lýkur 25 ára sögu listahátíðarinnar Lunga á Seyðisfirði. Gamlir gestir sem sóttu hátíðina heim á árum áður hafa gert sér leið á hátíðina að nýju til þess að kveðja hana í hinsta sinn ásamt yngri gestum sem Þórhildur Tinna Sigurðardóttir og Helena Solveigar Aðalsteinsbur vonast til að taki við keflinu.

„Það er bara líf í bænum og allt iðar,“ segir Þórhildur. Þau segja aðsókn á hátíðina hafa staðist allar væntingar hingað til og Helena væntir þess að fjölga muni í hópnum:

„Það komu mjög margir í bæinn í gærkvöldi og svo bætist við með deginum og fram á nótt.“

Hán segir að hátíðina hafi dregið til sín allt frá 500 til 3500 manns: „Það er flæði hvernig hátíðin minnkar og stækkar út frá því hvers konar rammi er gerður fyrir hana hverju sinni.“

Sorg í bland við gleði 

Þau segja andrúmsloft hátíðarinnar tilfinningaþrungið vitandi að verið sé að halda hátíðina í síðasta sinn.

„Þetta er svolítið sérstök tilfinning og þetta er tilfinningaþrungið. Margir sem hafa ekki komið í langan tíma eru að koma aftur til þess að kveðja,“ segir Helena og nefnir
hljómsveitina Reykjavík sem spilaði á hátíðinni síðast fyrir fimmtán árum.

„Það er alltaf ákveðin gleði sem umlykur Lunga, þannig þetta er ákveðin sorg í bland við gleði og allar tilfinningar velkomnar,“ segir hán.

Helena og Þórhildur segja aðsókn á hátíðina í ár hafa …
Helena og Þórhildur segja aðsókn á hátíðina í ár hafa staðist allar væntingar. Ljósmynd/Aðsend

Kyndilberar hátíðarhalda 

Gengið verður þó frá hátíðinni með von í brjósti og Þórhildur kveðst vita að komandi kynslóð taki við keflinu:

„Það er líka von um ný upphöf. Við vitum að þegar þessi hátíð enda, þá mun komandi kynslóð taka við keflinu.“

Hún segir að um ákveðin kynslóðaskipti sé að ræða og vonast til þess að yfirvöld komi til móts við og taki á móti þeim sem leggja fyrir hátíðarhöld í framtíðinni með opnum örmum.

Dagskrá dagsins í dag og kvöldsins verður í senn uppgjör hátíðarinnar ár og 25 ára sögu hátíðarinnar, þannig verður efnt til kveðjuathafnar að tónleikum loknum.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert