Veðurguðirnir svíkja landann á mánudag

Búast má við úrkomu víðsvegar um landið í næstu viku.
Búast má við úrkomu víðsvegar um landið í næstu viku. mbl.is/​Hari

„Það er svolítið sagan í næstu viku. Suðlægar áttir. Vætusamt, einkum sunnan- og vestanlands,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um veðurhorfur landsins næstu daga.

Segir Þorsteinn að búast megi við fínu veðri á höfuðborgarsvæðinu á morgun en þó ekki jafn góðu og var í dag. Veðurguðirnir muni svo svíkja landann á mánudag.

„Það er búið að ná held ég hátt upp í 15 stigum í dag einhverstaðar á höfuðborgarsvæðinu en það verður kannski ekki alveg svona hlýtt á morgun. Kannski bara 12-13 stig. Svo verður kannski ekki eins bjart á morgun. Meira skýjað. Svo á mánudaginn er að snúast í suðvestan átt og þá kemur súld og rigning,“ segir Þorsteinn.

Bleyta á öllum landshlutum

Í síðustu viku fékk Austurland það hlutverk að hýsa margan manninn er langaði í vott af sumarblíðu. Segir Þorsteinn að vissulega verði veðrið betra og bjartara norðaustanlands í vikunni en þó ekki jafn gott og í síðustu viku. Muni landshlutinn þó ekki sleppa alveg við rigninguna.

„Vikan er svona frekar í blautari kantinum víðast hvar,“ nefnir veðurfræðingurinn.

Mögulegar viðvaranir á Norðurlandi

Segir Þorsteinn þá horfurnar ekki vera góðar á Norðurlandi.

„Það er lægð að koma. Það er nú búið að vera svalt og blautt þarna í dag en það bætir heldur meira í rigninguna annað kvöld og aðfaranótt mánudags. Einkum á vestanverðum tröllaskaganum, þar verður mesta úrkoman líklega.“

Segir hann að ástandið verði metið á morgun með skriðusérfræðingum og öðrum um hvort viðvaranir verði gefnar út.

Hlýjast fyrir sunnan í dag

Um hlýjuna í dag segir Þorsteinn að hæstur hafi hiti verið á sunnanverðu landinu. Mældust 19,4 gráður á Sámsstöðum og fylgdi þar Kirkjubæjarklaustur rétt á eftir þar sem mælingar sýndu hitann vera rétt við 19 gráður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert