„Afdrifaríkt“ bréf ekki kynnt minnihlutanum

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir grundvallaratriði að tryggja …
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir grundvallaratriði að tryggja flugöryggi. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Árni Sæberg

Bréf Samgöngustofu þess efnis að Samgöngustofa muni láta fjarlægja tré í Öskjuhlíð á kostnað Reykjavíkurborgar, náist ekki samkomulag á milli borgarinnar og Isavia, hefur ekki verið kynnt minnihluti borgarstjórnar. Bréfið sendi Samgöngustofa til borgarinnar í lok maí. 

Þetta staðfestir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, í samtali við mbl.is en Reykjavíkurborg hefur til 2. september til að komast að samkomulagi við Isavia. 

Málið varðar flugöryggi í Vatnsmýrinni. 

Öryggisógn 

Fyr­ir tæplega ári fengu borg­ar­yf­ir­völd minn­is­blað frá Isa­via inn­an­lands­flug­völl­um um að trjá­gróður í Öskju­hlíð væri farinn að skapa „raunverulega öryggisógn“.

Í viðtali við mbl.is sagði Sigrún Björk Jak­obs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri einka­hluta­fé­lags­ins Isa­via Inn­an­lands­flug­valla (ISI), á þeim tíma að ætlunin væri ekki að skilja Öskjuhlíð eftir „sköllótta“, heldur þurfi að ráðast í stórfellda grisjun. 

Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, sagði daginn eftir að kallað yrði eft­ir sjón­ar­miðum þeirra sem hags­muna hafa að gæta.

Borgin ekki brugðist við beiðnum 

Í bréfi Samgöngustofu, sem er dagsett 27. maí, segir að Reykjavíkurborg hafi til 2. september til þess að grisja trjágróðurinn. 

„Samgöngustofa hefur ítrekað framlengt frestinn þar sem Reykjavíkurborg hefur ekki brugðist við beiðnum ISI um að lækka trjágróðurinn. Samgöngustofa hefur nú upplýst ISI um að frekari frestur til að loka frávikinu verði ekki veittur,“ segir í bréfinu. 

Þá segir að fari svo að ISI nái ekki samkomulagi við Reykjavíkurborg um aðgerðir mun Samgöngustofa fara í nauðsynlegar aðgerðir til að fjarlægja trén í Öskjuhlíð á kostnað borgarinnar.

Verður ekki sópað undir teppið 

„Mér þykir verulega ámælisvert að hvorki borgarráð né umhverfis- og skipulagsráð hafi fengið upplýsingar um bréfið frá Samgöngustofu. Þar er borginni gert að grisja trjágrjóður í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis, en sú beiðni kom jafnframt frá Isavia síðastliðið sumar. Ég kallaði eftir upplýsingum um stöðu mála í vor en fékk takmarkaðar upplýsingar enda ljóst að ekkert hefur verið aðhafst,“ segir Hildur. 

Hún telur að á meðan flugvöllurinn er staðsettur í Vatnsmýri sé það grundvallaratriði að tryggja flugöryggi, sama hvaða skoðanir fólk kann að hafa á framtíðarskipulagi svæðisins.

„Það er ljóst að bréfið frá Samgöngustofu getur reynst afdrifaríkt, enda virðist Samgöngustofa áskilja sér rétt til að grípa til viðeigandi aðgerða með atbeina lögreglu, ef borgin bregst ekki við innan tilskilins frests. Þessu máli verður ekki sópað undir teppið og eðlilegt að það fái bæði kynningu og umræðu á vettvangi borgarinnar,“ segir Hildur að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert