Fossvogslaug ekki í áætlunum Kópavogs

Ármann Kr. Ólafsson, þáverandi bæjarstjóri Kópavogs, og Dagur B. Eggertsson, …
Ármann Kr. Ólafsson, þáverandi bæjarstjóri Kópavogs, og Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur, við undirritun yfirlýsingar um uppbyggingu Fossvogslaugar. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs segir Fossvogslaug ekki á dagskrá á næstunni. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/Sigurður Bogi

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, segir uppbyggingu Fossvogslaugar ekki vera á dagskrá bæjaryfirvalda á næstunni.

„Það eru engin áform um slíkt. Þetta er ekki í þriggja ára áætlun okkar þannig að eins og sakir standa eru engin áform um uppbyggingu á slíkri laug,“ segir Ásdís í samtali við mbl.is.

Undirstrikuðu að laugin yrði að veruleika

Ármann Kr. Ólafsson, þáverandi bæjarstjóri Kópavogsbæjar, og Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri Reykjavíkurborgar og núverandi formaður borgarráðs, skrifuðu undir viljayfirlýsingu árið 2021 um að halda sameiginlega hönnunarkeppni fyrir sundlaugina.

Sveitarfélögin sendu jafnframt tilkynningu árið 2022 þar sem þau undirstrikuðu að Fossvogslaug yrði að veruleika og verði staðsett fyrir miðjum Fossvogsdal.

Fjárfesting sem er ekki í forgangi

„Við teljum að þetta sé ekki sú fjárfesting sem eigi að vera í forgangi vegna þess að við erum með sundlaugar til að mæta okkar skólabörnum og þetta var eitthvað sem var til umræðu á síðasta kjörtímabili,“ segir Ásdís.

Aðspurð segist hún ekki vita hvernig staðan er hjá Reykjavíkurborg og geti ekki talað fyrir hönd borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert