Miklar framkvæmdir standa nú yfir á Framnesvegi og Hringbraut í Vesturbænum í Reykjavík. Veitur endurnýja þar lagnir fráveitu, vatnsveitu og hitaveitu en elstu lagnir þarna eru allt að eitt hundrað ára gamlar.
Kafli á Framnesvegi frá Sólvallagötu að Hringbraut er sundurgrafinn og þvera þarf Hringbraut til að tengja nýjar lagnir. Eins og sjá má á myndinni hefur verið þrengt að umferð á þessum hluta Hringbrautar að undanförnu og má búast við að svo verði áfram. Að því er fram kemur á upplýsingasíðu Veitna er hér um síðasta hluta þessara framkvæmda að ræða. Þær hófust í fyrra og áætlað er að þeim ljúki í næsta mánuði.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag