Opnun Sorpu seinkað: Lögregla skarst í leikinn

Lögreglan fór á endurvinnslustöð Sorpu fyrr í dag.
Lögreglan fór á endurvinnslustöð Sorpu fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Opnun endurvinnslustöðvar Sorpu í Vesturbænum í Reykjavík seinkaði í dag vegna lögregluaðgerðar við stöðina. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að þar hafi góðkunningi lögreglunnar verið á ferð.

„Góðkunningi lögreglunnar var búinn að safna dósum, skildi þær eftir og ætlaði að bíða eftir að það opnaði,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Jóhann útskýrir að maðurinn hafi ætlað að koma aftur að dósunum við endurvinnslustöðina í Ánanaustum en þær þá ekki verið á sama stað og hann því viljað meina að þeim hefði verið stolið.

Úr varð havarí

Nefnir hann að maðurinn hafi þá farið að þræta við aðra dósasafnara sem komnir voru og ætluðu að skila sínum dósum.

„Og úr varð eitthvað havarí,“ bætir hann við.

Spurður hvort einhver hafi verið handtekinn svarar hann að ekki hafi verið tilefni til.

„Lögregla bara ræddi við þá og þá fóru allir sína leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert