Telur blautt sumar í vændum

Veðurfræðingurinn Óli Þór Árnason segir að blautt sumar sé í …
Veðurfræðingurinn Óli Þór Árnason segir að blautt sumar sé í vændum. mbl.is/Golli

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir sumarveður ekki vera í vændum og að um blautt sumar verði að ræða. 

„Þó verður þetta svolítið landshlutaskipt, það verður reyndar mjög leiðinlegt veður fyrir norðan í nótt og fram á morgundag,“ segir Óli. 

„Sunnan til er vestanátt, þannig að síðdegis á morgun verður komið svona súldarloft, frekar grátt og leiðinlegt en ekkert rosalega kalt svo sem,“ segir Óli. 

Menn brosa fyrir norðan og austan

Að sögn Óla verður norðausturhornið með besta veðrið í vikunni: „Þar verður hlýjast og bjartast, en hérna sunnan megin á landinu verður blautt og grátt.“

„Það er óvenjumikill lægðagangur miðað við sumarástand,“ segir Óli, spurður hvort eitthvert sumar sé á leiðinni samkvæmt langtímaspám. 

„Það er greinilegt að sunnan- og suðvestanáttir verða líklega nokkuð ríkjandi, þá brosa menn fyrir norðan og austan en minna á suðvesturhorninu,“ segir Óli að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert