Nýjustu upplýsingar úr GPS-stöðinni við Svartsengi benda til þess að goslok séu í nánd á Sundhnúkagígaröðinni. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur bendir á þetta í bloggfærslu og vísar til þess að landris hafi haldist stöðugt frá því að síðasta eldgosi lauk 22. júní þar til 12. júlí þegar það virðist hafa stöðvast.
Haraldur telur þetta benda til þess að kvikuuppstreymi í lárétta kvikuinnskotið undir Svartsengi hafi minnkað verulega eða jafnvel stöðvast. Hann viðurkennir þó að enn sé of snemmt að fagna, en að breytingar virðist vera í þá áttina.
Hinn 14. mars 2024 birtu Haraldur og Grímur Björnsson grein þar sem þeir spáðu því að innstreymi kviku í lagganginn undir Svartsengi myndi ljúka síðsumars. Í greininni birtust tvær spálínur um goslok, sem gáfu til kynna að kvikurennsli myndi ná núlli á bilinu 5. júlí til 10. ágúst 2024.
„Þetta getur farið á hvorn veginn sem er að mínu viti,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, mánudag.