„Ég hef alveg pirrað mig á því að þetta sé ekki betur varið, eitthvað sett eða eitthvað gert, til að reyna verja nágrannana og bílana okkar,“ segir Sandra Guðrún Guðmundsdóttir sem býr á Laugarnesvegi, fyrir aftan framkvæmdarsvæðið þar sem Íslandsbankahúsið stóð.
Umræða skapaðist á hverfishóp Laugarneshverfis á Facebook í dag eftir að hvítt ryk settist á bíla nágranna framkvæmdasvæðisins. Svo virðist vera að um sé að ræða ryk sem erfitt er að ná af.
Byrjað var að rífa innan úr húsinu í desember, og líkt og má sjá á meðfylgjandi mynd sem var tekin síðdegis í dag, er lítið eftir af húsinu sem hafði staðið autt síðan 2017.
„Þetta kemur yfir húsið og innum gluggana – og já bílinn,“ segir Sandra og bætir við að hún myndi ekki leggja í bílastæðið sitt ef hún ætti verðmætari bíl.
„Þá myndi ég leggja einhversstaðar annars staðar en heima hjá mér held ég.“
Sandra segir að um leið og byrjað var að rífa niður steypu hússins þá byrjaði rykið að berast.
Hún lýsir því hvernig einn daginn vaknaði hún við brúnleitt ryk á gluggunum, sem hún náði þó af. Hvítleita rykið sem féll hins vegar í morgun virðist svæsnara.
Það liggur yfir húddinu á bílnum hennar og bárujárninu sem snýr að framkvæmdarsvæðinu.
Sandra segir að eftir að framkvæmdirnar hófust þá hafi hún reynt að halda gluggum lokuðum þar sem að mikið ryk berist inn.
„Þetta er alveg svolítið þreytandi.“
Sandra segir að hvorki eigendur né verktakarnir hafi haft samband við nágranna hússins vegna framkvæmdanna.
Þannig að þeir hafa ekkert verið að vara íbúa við þegar búast má við miklu ryki?
„Nei,“ svarar Sandra og segist hafa íhugað að hafa samband en ekki gert það af því henni er nokkuð sama um bílinn sem hún ætlar að losa sig við í haust.
Hún nefnir að hún hafi ekki viljað sitja úti í garði í sumar útaf rykinu. Veðrið í sumar hafi þó einnig spilað inn í.
Sandra minnist einnig á að sem betur fer hafi enginn nágranni verið að mála utandyra.
Spurð hvort að hávaði frá framkvæmdunum hafi angrað hana svarar Sandra neitandi þar sem hún vinni á daginn. Hún segir að fólk í vaktavinnu heyri þó eflaust meira í þeim.