„Ekkert samtal sem hefur átt sér stað“

Sigrún Björk segir að lítið hafi heyrst frá Reykjavíkurborg síðan …
Sigrún Björk segir að lítið hafi heyrst frá Reykjavíkurborg síðan að þau fengu minnisblað frá Isavia fyrir tæpu ári. Samsett mynd

„Mér finnst þetta byggja á ákveðnum misskilningi vegna þess að bréfið var hvorki stílað á umhverfis- og skipulagsráð né borgarráð,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, spurð hvers vegna bréf Samgöngustofu hafi ekki verið kynnt fyrir minnihluta borgarinnar, eins og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, gerði grein fyrir í samtali við mbl.is í gær. 

Bréf Samgöngustofu til borgarinnar er þess efnis að Samgöngustofa muni láta fjarlægja tré í Öskjuhlíð á kostnað Reykjavíkurborgar, náist ekki samkomulag á milli borgarinnar og Isavia Innanlandsflugvelli ehf. (ISI). Borgin fékk bréfið í lok maí og hafa þau til 2. september til að komast að samkomulagi við ISI, að því er segir í bréfi Samgöngustofu.

Dóra segir að bréfið hafi farið sinn eðlilega farveg innan stjórnsýslunnar til þess að finna út úr málinu og að ekkert sé tortryggilegt við þá framkvæmd. 

„Þetta er bara eðlileg stjórnsýsla og alveg óþarfi að gera þetta eitthvað tortryggilegt, en það er kannski fyrirsjáanlegt af þessum fulltrúa minnihlutans sem hefur pólitískan hag af því að gera hluti tortryggilega,“ segir Dóra. 

Ekkert heyrt frá borginni

Málið snýst um flugöryggi við Reykjavíkurflugvöll og hefur verið til umfjöllunar í nokkurn tíma. 

Fyrir tæplega ári fengu borgaryfirvöld minnisblað frá Isavia Innanlandsflugvellir ehf. (ISI) um að trjágróðurinn í Öskjuhlíðinni væri farinn að skapa verulega öryggisógn gagnvart starfsemi flugvallarins. Þá krafðist ISI að um 2.900 tré yrðu höggvin til þess að tryggja flugöryggi. 

Um er að ræða einn elsta samfellda skóg í Reykjavík, nánar tiltekið skóglendi Öskjuhlíðar frá svæðinu við Háskólann í Reykjavík að svæði kirkjugarðsins í Fossvogi og Perlunnar. 

„Trjágróður í Öskjuhlíð er farin að verða raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi að braut 31 og brottflugi að braut 13. Vindafar ræður notkun flugbrauta og flugbraut verður að vera aðgengileg og örugg til þess að tefla ekki rekstraröryggi flugvallarins í tvísýnu,“ segir í minnisblaði Isavia til borgarinnar.

Sigrún Björk Jakosdóttir, framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Isavia Innanlandsflugvalla, segir í samtali við mbl.is að ekkert samtal hafi átt sér stað á milli Reykjavíkurborgar og ISI síðan að minnisblaðið var sent. 

„Það er í rauninni ekkert samtal sem hefur átt sér stað.“ 

Fyrri myndin gefur hugmynd um hve stór hluti skógarins hverfur …
Fyrri myndin gefur hugmynd um hve stór hluti skógarins hverfur verði 1.200 tré felld. Sú síðari gefur hugmynd um þann hluta skógarins í Öskjuhlíð sem hverfur verði öll tré innan aðflugsflatarins felld, um 2.900 tré, samkvæmt kröfu Isavia. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Hindri starfsemi flugvallarins

ISI og borginni greinir á um hversu mörg tré þurfi að höggva til að tryggja flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli. ISI fer fram á að 2.900 tré verða höggvin en sérfræðingar hjá borginni telja að nóg sé að fella 40 tré til þess að uppfylla sett skilyrði. RÚV greindi fyrst frá. 

Sigrún segist ekki hafa heyrt af þessum áformum borgarinnar fyrr en í fréttum í gær. 

„Þetta með þessi 40 tré, sem þeir segja að sé nóg til að uppfylla sett skilyrði, er það fyrsta sem við heyrum frá borginni varðandi þetta mál síðan í fyrra.“

Þá segir hún að síðan borgin fékk minnisblaðið hafi trén vaxið að minnsta kosti einn metra til viðbótar og ef þau verða ekki fjarlægð þá fari þau að hindra starfsemi flugvallarins. 

„Hæðin á trjánum veldur því að flugvélarnar þurfa að koma mjög bratt inn á flugbrautina og þær geta ekki flogið mjög bratt frá flugbrautinni heldur. Og til þess að þær geti þetta þurfa vélarnar að vera léttari og myndi það til dæmis takmarka fjölda farþega og farangur sem vélarnar geta tekið ef það þyrfti að nota þessa braut,“ segir Sigrún. 

Hugsa um eigin hagsmuni

Dóra Björt segir sérstakt að Samgöngustofa taki einhliða afstöðu með ISI í staðin fyrir að leggja sjálfstætt mat á málið. 

„Isavia er auðvitað bara að hugsa um sína eigin hagsmuni, þetta er þeirra mat og við köllum eftir því að Samgöngustofa leggi sjálfstætt mat á málið. Í þessu bréfi er eingöngu vísað til þessarar kröfu og mat Isavia. En það er hlutverk eftirlitsaðila eins og Samgöngustofu að meta og vigta málið út frá heildar hagsmunum.

Við vitum að Öskjuhlíðin er útivistarperla Reykvíkinga og það er ekki mikil stemning meðal Reykvíkinga að fella niður helming elsta og stærsta skóg borgarinnar, eins og Isavia í rauninni biður um. Og það er heldur ekki stemning fyrir stjórnsýslu sem tekur einhliða afstöðu með skýrum hagsmunaaðila í staðin fyrir að meta heildarhagsmuni að málinu,“ segir Dóra. 

Dóra Björt, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.
Dóra Björt, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir í kjölfarið að boðað verði til fundar með Samgöngustofu eftir sumarleyfi og að fullur vilji sé til þess að leysa málið. 

Þá segir hún að samtal hafi átt sér stað á meðal hagsmunaaðila að málinu. 

„Við höfum átt samtal við Isavia, innviðaráðuneytið og Samgöngustofu. Það er í rauninni ákveðinn starfshópur sem er nú að störfum sem vinnur að skipulagsreglum fyrir Reykjavíkurflugvöll. Svo það er stanslaust samtal í gangi um þessi mál.“

Dóra Björt segir að ekkert sé tortryggilegt við að bréfið …
Dóra Björt segir að ekkert sé tortryggilegt við að bréfið hafi ekki verið kynnt fyrir minnihluta borgarinnar. Samsett mynd/Aðsend/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka