Elvis hleypur ekki að þessu sinni

Valdimar Sverrisson, ljósmyndari og uppstandari, mun hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í næsta mánuði til styrktar Hljóðbókasafni Íslands. 

„Þetta er táknrænt þakklæti af minni hálfu en ég hef notað safnið mikið síðan ég missti sjónina fyrir níu árum,“ segir Valdimar en þetta verður sjöunda árið í röð sem hann hleypur í Reykjavíkurmaraþoninu eftir að hann varð blindur. „Ég var búinn að hlaupa einu sinni áður, að mig minnir, frekar en tvisvar.“

Valdimar segir æfingar hafa gengið vel en hann hefur meðal annars verið að taka Unbroken, náttúrulegt orkuskot, við undirbúninginn og lætur vel af því. „Annars er ég ekki að keppa við neinn nema sjálfan mig og markmið er sem fyrr að ljúka keppni á innan við einni og hálfri klukkustund.“

Mikla athygli vakti í fyrra þegar Valdimar hljóp í forláta Elvisbúningi en ekkert slíkt sprell er í kortunum að þessu sinni. „Ég er að vísu með hugmynd að tveimur öðrum búningum, sem tengjast ekki ákveðnum persónum en það er önnur saga. Við sjáum til með það seinna,“ segir hann. 

Valdimar Sverrisson ljósmyndari og uppistandari.
Valdimar Sverrisson ljósmyndari og uppistandari. Mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari


Elvis kemur þó við sögu í myndbandi sem Valdimar gerði í tilefni af hlaupinu nú og sjá má hér að neðan en auk hans sjálfs leikur Þröstur Leó Gunnarsson í myndbandinu sem hefur yfirskriftina Á ferð með kónginum. 

Vekur athygli á starfseminni

Marín Guðrún Hrafnsdóttir forstöðumaður Hljóðbókasafnsins kann Valdimari bestu þakkir fyrir framtakið. „Við erum afskaplega ánægð með að hann skuli sýna Hljóðbókasafninu þakklæti með því að hlaupa fyrir okkur,“ segir hún.

„Safnið hefur það hlutverk að aðstoða blinda, sjónskerta og fólk sem glímir við lestrarhömlur og það er þakkarvert þegar fólk kinkar kolli til starfseminnar með þessum hætti. Í okkar huga er þetta ekki spurning um peninga heldur hitt, að vekja athygli á starfseminni. Það hjálpar okkur að ná til þeirra sem þurfa á henni að halda. Í því sambandi hittir Valdimar naglann á höfuðið.“

Valdimar í gervi Elvis fyrir Reykjavíkurmaraþonið í fyrra.
Valdimar í gervi Elvis fyrir Reykjavíkurmaraþonið í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert