Engin leiðsögn á íslensku fyrr en í faraldrinum

Fanney Ásgeirsdóttir þjóðgarðsvörður segir vel hafa gengið frá opnun Skaftárstofu …
Fanney Ásgeirsdóttir þjóðgarðsvörður segir vel hafa gengið frá opnun Skaftárstofu á Kirkjubæjarklaustri. mbl.is/Eyþór Árnason

Skaftárstofa, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs hjá Kirkjubæjarklaustri, hefur notið vinsælda á meðal ferðafólks og heimamanna frá því hún opnaði dyr sínar í október.

Þjóðgarðsvörður segir það mikilvægan hluta af starfi þjóðgarðsins að styðja samfélagið á sjálfbæran hátt og vera góður granni.

Gestastofan er byggð eftir vinningstillögu SP(R)INT STUDIO ásamt Nis­sen Rich­ards Studio í hönnunarsamkeppni sem sækir innblástur sinn í náttúruna. 

„Húsið á náttúrulega að falla í þessa hóla og gerir það. Það er pínu eins og ein álfaborg í hólunum,“ segir Fanney Ásgeirsdóttir þjóðgarðsvörður.

Framsýnn bóndi gaf jörðina

Staðsetn­ing gestastofunnar kemur til af því að Magnús Þorfinns­son, bóndi í Hæðarg­arði, færði Vatna­jök­ulsþjóðgarði lóðina að gjöf fyr­ir allmörgum árum en framkvæmdir hófust árið 2020 þar sem Magnús tók fyrstu skóflustungu. 

„Hann sá bara hvað það yrði mikill hagur af fyrir samfélagið hans að hér yrði staður þar sem gestum væru veittar upplýsingar og þeir gætu staldrað við,“ segir Fanney. 

„Það er ekkert langt síðan mönnum var ekki talið vera til framdráttar að vera náttúruverndarsinnar en Magnús hefur alltaf verið framsýnn maður.“

Hún segir vel hafa gengið síðan gestastofan opnaði dyr sínar og bæði reynst ferðalöngum í leit að upplýsingum vel sem og menningarstarfsemi KirkjubæjarklaustursTil að mynda sé hljómburður í húsinu afbragðsgóður og rýmið því frábært til afnota undir tónleika. 

Fanney við hlið platta til heiðurs Magnúsi Þorfinnssyni bónda.
Fanney við hlið platta til heiðurs Magnúsi Þorfinnssyni bónda. mbl.is/Eyþór Árnason

Auðvelda fólki að kynnast náttúruperlum

Vesturhluti þjóðgarðsins bjóði að auki upp á þrjár göngur á dag yfir sumarið, en ein þeirra hefst við gestastofuna. Göngugarpar geti slegist í för sér að kostnaðarlausu til að skoða svæðið eða kíkt á gestastofuna til að leita sér upplýsinga um góðar gönguleiðir og útsýnisstaði. 

Aðspurð segir Fanney ferðalangana sem nýti sér þjónustu þjóðgarðsins að miklu leyti erlenda ferðamenn en það hafi aftur á móti tekið að breytast með árunum.

„Einu sinni voru þetta eiginlega bara ferðamenn, í covid-inu fór svo annar hópur af Íslendingum að ferðast um hálendið,“ segir Fanney. 

„Það var mjög skemmtilegt því sumir sem höfðu unnið hjá okkur í mörg ár uppgötvuðu að þeir höfðu aldrei haldið fræðslugönguna á íslensku.“

Hún bendir þó á að fræðslan lúti ekki einungis að áhugaverðum gönguleiðum og skemmtanagildi heldur að sjálfsögðu líka að náttúruvernd. 

„Við erum að auðvelda fólki að kynnast þessum náttúruperlum okkar, við erum að hjálpa þeim að umgangast þær líka. Náttúruverndin byggist að svo stórum hluta á fræðslu.“ 

Í gestastofunni er bjart og hlýlegt en þar er hægt …
Í gestastofunni er bjart og hlýlegt en þar er hægt að gæða sér á kaffisopa og leita sér upplýsinga um þjóðgarðinn. mbl.is/Eyþór Árnason

Þarft ekki að koma á sýningu til að horfa á skjá

Auk fræðslunnar og gönguferðanna bíður gestastofan einnig upp á tímabundna sýningu um þessar mundir en varanleg sýning Skaftárstofu er enn í vinnslu. 

Fanney kveðst sjálf hafa starfað sem kennari um árabil og helst viljað hafa sem fæsta skjái í sýningunni og frekar eitthvað sem fólk geti handleikið og skoðað. Fólk sé mun líklegra til að lesa og fræðast ef það þurfi að lyfta hlera eða snúa hjóli til að sjá það.

„Núna getur fólk skoðað allt í símanum þannig að þú þarft ekki að koma inn í sýningarsal til að horfa á skjá.“

Nýja sýningin verð einnig hönnuð með slíkum hætti að auðvelt sé að færa hana til að koma fyrir allt að 120 manns á ráðstefnu eða öðrum menningarviðburðum.  

„Eitt af því sem þjóðgarðurinn á að gera er að styðja og efla samfélagið sitt á sjálfbæran hátt. Það á að vera plús að hafa okkur. Við eigum að vera góðir nágrannar.“

Sýning gestastofunnar er tímabundin á meðan beðið er eftir því …
Sýning gestastofunnar er tímabundin á meðan beðið er eftir því að varanleg sýning um svæðið verði tilbúin. mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert