Erlend glæpagengi herja á verslanir

Bæði er meira um að einstaklingar steli í verslunum og …
Bæði er meira um að einstaklingar steli í verslunum og að glæpagengi stundi búðarhnupl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einstaklingar sem stela úr verslunum eru gjarnan Íslendingar en glæpagengi sem stunda það sama eru frekar af erlendu bergi brotin.

Þetta segir Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir að búðarhnupl hafi aukist um 40-50% fyrstu sex mánuði ársins miðað við sama tímabil síðustu fjögur árin.

„Það er eins og það hafi orðið sprenging það sem af er þessu ári,“ segir Guðmundur Pétur í samtali við mbl.is.

Vinsælt að stela kjöti og ilmvatni

Hann segir að ekki sé vitað hver ástæðan sé fyrir aukningunni, en að hans mati séu nú fleiri tækifærissinnaðir þjófar, sem séu að stela, en áður.

Hann segir gríðarlega mikið vera um það að heimilislaust fólk og fólk í fíknivanda steli sér til matar, en þá sé um að ræða einstaklinga.

„Síðan er stór partur af þessu líka skipulagt,“ segir Guðmundur Pétur. Þá sé verið að stela miklu magni af kjöti eða ilmvatni úr verslunum. Líklegt sé að þýfið sé síðan selt.

Enginn rekinn úr landi

„Það er aukning í þessu öllu saman. Hvort sem þú ert einhver einyrki á ferð að reyna að ná sér í mat til að borða, eða skipulögð glæpastarfsemi.“ 

Guðmundur segir að þeir einstaklingar sem stundi skipulagða glæpastarfsemi séu oftast af erlendu bergi brotnir, en tekur fram að ekki sé endilega um hælisleitendur að ræða.

„Þetta er bara fólk sem kemur frá Evrópu og er í Schengen og fær að vera hérna í vinnu eða er hérna á bótum og lifir þessum lífstíl eins og það gerði í heimalandi sínu,“ segir Guðmundur Pétur.

Fólk fái dóma fyrir þjófnað hér á landi og afpláni fangelsisvist en enginn sé rekinn úr landi ef hann komi frá löndum innan Schengen-svæðisins.

Guðmundur Pétur segir að lögreglan gefi ekki út neinar opinberar tölur um þjóðerni gerenda í málum sem þessum.

Verkstjórar stýri glæpunum

Um helgina þegar Ríkisútvarpið fjallaði um þjófnað í verslunum var rætt við Sigurð Reynaldsson, framkvæmdastjóra Hagkaups, en hann sagði að verkstjórar á vegum glæpagengja stæðu fyrir utan verslanir og sendu inn glæpagengi að sækja inn ákveðnar vörur.

„Það er bara rétt hjá honum. Það er hópur manna sem vinnur saman. Sérstaklega þegar verið er að fylla heilu matarkerrurnar af kjötvöru og farið með það í gegnum sjálfsafgreiðslukassana,“ segir Guðmundur Pétur, spurður um ummælin.

Þetta sjáist á upptökum frá eftirlitsmyndavélum í verslununum. Oft sjáist sama fólkið aftur og aftur að stela.

Íslenskir gerendur fólk í fíknivanda

Varðandi þjófnað úr verslunum þar sem dýr fatnaður er seldur, segir Guðmundur Pétur að einyrkjar sem stela séu meira Íslendingar sem séu að stela einni og einni verðmætri flík.

Þeir geri það oft til þess að greiða fyrir skuld eða til þess að skipta fyrir fíkniefni.

Þeir geri lítið til þess að fela sig þegar þeir stela og þekkjast oft á upptökum eftirlitsmyndavéla í verslununum, ef þeir nást ekki á hlaupum.

„Svo eru glæpagengi líka að herja á verslanirnar og koma kannski fimm eða sex inn. Þá eru kannski fjórir eða fimm að trufla og einn að fara kannski í tvær til þrjár flíkur og labba svo bara út, segir Guðmundur Pétur.

Þá sé meira um erlent fólk að ræða. 

Þjófar oft með grímur

Hann segir að oft sjáist lítið í andlit þjófanna inni í verslunum. „Það eru margir með grímur inni í búðinni og með hettuna yfir og jafnvel með derhúfu undir hettunni.“

Slík múndering ætti að vera skýrt merki til öryggisvarða í búðum að fylgjast með fólki. Guðmundur Pétur bætir þó við að auðvitað séu líka saklausir einstaklingar sem noti grímur á almannafæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert