„Ég heyri það frá foreldrum að þeim finnst þeir ekki fá nógu góðar upplýsingar um stöðu barna sinna í námi. Þá held ég að við verðum að skoða: Hvað er það í þessu sem við þurfum að gera öðruvísi?“ segir Ómar Örn Magnússon skólastjóri Hagaskóla.
„Það er námskrá sem kveður á um matsviðmið í einkunnagjöf, en ég held að hver sá sem les þessi matsviðmið sjái að það er ekki tryggt að ákveðin matsviðmið séu metin og vegin á sama hátt í skólum,“ segir Ómar.
Hann segir fólk ekki skilja fyrirkomulagið á sama hátt og það sé heldur ekki skilið á sama hátt frá einum skóla til annars, eins og heppilegast væri.
Tekur hann fram að foreldrar fylgist vel með gengi barna sinna í skóla og að þeir hafi skoðanir á því sem gert sé í skólanum og að honum finnist það frábært.
„En við höfum ekki náð að útskýra nógu vel fyrir foreldrum hvað og hvernig sé metið og hver séu viðmið um árangur.“
Hann segist ekki kalla sérstaklega eftir eftirliti með einkunnagjöf í grunnskólum, en að til ætti að vera skýrari rammi um hvað hvað verið sé að meta og hvernig það sé gert.
„Ef við ætlum að nota þessar mælingar þá þurfa þær að vera samræmdari. Við eigum að gera það mjög skýrt til hvers sé ætlast og hvaða árangri við ætlum að ná,“ segir hann.
„Til dæmis í ritun í íslensku. Viljum við að nemendur geti tjáð sig um samfélagið eða tilfinningar, eða hvað það nú er, og skrifað samfelldan texta? Að þau skrifi ákveðið mörg orð og noti fjölbreyttan orðaforða?“ spyr Ómar.
„Þetta er í mínum huga of óljóst. Það er forsenda fyrir því að börnum líði vel í námi, og geti náð tökum á því, að þau viti til hvers sé ætlast af þeim.“