Þegar norsk stjórnvöld ákváðu að loka fjölmörgum af bestu laxveiðiám landsins blasti fljótlega gjaldþrot við mörgum rekstraraðilum sem gert hafa út á veiðiferðamennsku. Noregur er eitt þekktasta land í heimi þegar kemur að hinum eftirsótta sportveiðifiski, atlantshafslaxinum.
Margir Íslendingar voru búnir að festa umtalsverðar fjárhæðir í veiðileyfum í Noregi í sumar. Sjálfsagt hefur enginn verið jafn stórtækur á því sviði og Árni Baldursson ævintýramaður og atvinnuveiðimaður. Árni var búinn að borga og skipuleggja átta vikna samfellda veiðiferð í Noregi í sumar. Eftir að hann var kominn út var tilkynnt um lokunina.
Raunar er Árni fótbrotinn en hann var samt kominn til Noregs til að láta reyna á brotna fótinn. Á endanum hrökklaðist hann heim og endaði í Dagmálum Morgunblaðsins.
Áður en til heimferðar kom ók hann norður allan Noreg og skoðaði þar hinar ýmsu ár. Honum er verulega brugðið þegar hann hefur séð með eigin augum hvernig Norðmenn ganga um þessa auðlind – laxinn. Skefjalaus netaveiði er stunduð í öllum fjörðum landsins og veiða og sleppa er nánast hvergi stundað. Þá er ótalið sjókvíaeldið sem er að finna í nánast öllum fjörðum.
Þó svo að öllum laxveiðiám hafi ekki verið lokað þá vantar fiskinn. Ekki er nema brot af honum að skila sér úr sjó. Hinir svartsýnustu búast við lokun til einhverra ára í Noregi.
Rekstraraðilar verða sjálfsagt allflestir gjaldþrota. Þeir hafa ekki fjármuni til að endurgreiða öllum veiðimönnum og greiði þeir ekki til baka leyfin blasir líka við gjaldþrot því enginn veiðimaður mun treysta því að kaupa leyfi á næstunni. Líklegast mun ekki liggja fyrir fyrr en í byrjun sumars á næsta ári hvernig staðan verður.
Árni segist vorkenna þessu fólki afskaplega mikið og veltir fyrir sér hvað verði um þennan stóra og blómlega iðnað sem var blóðrásin í mörgum samfélögum yfir sumartímann.
Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins. Hvað er betra en klukkustund með Árna Baldurssyni í byrjun vinnuvikunnar?