Lögregla vill láta fjarlægja TikTok-reikning

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem aðgangur er gerður …
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem aðgangur er gerður í nafni lögreglunnar. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/AFP

Óprúttnir aðilar hafa opnað reikning á samfélagsmiðlinum TikTok undir fölsku flaggi lögreglunnar. Lögreglan hefur óskað eftir því að reikningurinn verði tekinn niður.

Þetta segir Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarstjóri í upplýsinga- og áætlunardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Lögreglan ekki á leiðinni á TikTok

Marta segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem einstaklingar stofni TikTok-reikning undir nafni lögreglunnar. 

„Við höfum lent í því annað slagið að það er verið að stofna reikning í nafni lögreglunnar og við höfum þá verið að láta taka þá niður. Við erum sjálf ekki á TikTok,“ segir Marta.

Aðspurð segir hún að lögreglan sé ekki á leiðinni á samfélagsmiðilinn vinsæla. Lögreglan eigi TikTok-reikning en hann sé ekki í notkun og ekki standi til að taka hann í notkun í bráð. 

„Við erum á Instagram og á Facebook og höfum hingað til látið það duga, en það er líka takmarkaður mannskapur sem getur sinnt svona samfélagsmiðlum,“ segir Marta.

Grínmyndskeið

Ekki er búið að fjarlægja reikninginn en hann hefur notið töluverðra vinsælda.

Hann er þegar kominn með rúmlega 1.300 fylgjendur, þrátt fyrir að fyrsta myndbandið hafi verið birt fyrir aðeins fjórum dögum. 

Búið er að birta tvö myndskeið á aðganginum. Annað þeirra er hálfgert grínmyndband eða skets. Þar er kona í yfirheyrslu fyrir að hafa ekið hopphjóli undir áhrifum áfengis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert