Það er undir hverjum grunnskóla komið hvers konar matskvarði er notaður til að mæla árangur nemenda í 1.-9. bekk. Við lok 10. bekkjar er loks öllum grunnskólum skylt að útskrifa nemendur með einkunnir á skalanum A til D, samkvæmt aðalnámskrá.
Þetta segir Auður Bára Ólafsdóttir, sérfræðingur í aðalnámskrá grunnskóla hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, spurð hvernig námsmati grunnskólanna sé háttað.
„Fyrir A, B og C eru sett matsviðmið sem eru lýsandi fyrir hvaða hæfni nemandi á að hafa náð tökum á við lok 10. bekkjar,“ segir Auður.
Hún segir aftur á móti að þetta þurfi ekki að eiga við um aðra árganga grunnskólanna.
„Þar skipuleggja skólar sjálfir hvort þeir nota 1-10 mælikvarða, umsagnir eða A, B, C og D,“ segir Auður.
Ómar Örn Magnússon skólastjóri Hagaskóla segir í samtali við Morgunblaðið í dag að hann heyri frá foreldrum að þeim finnist þeir ekki fá nógu góðar upplýsingar um stöðu barna sinna í námi.
„Ef við ætlum að nota þessar mælingar þá þurfa þær að vera samræmdari. Við eigum að gera það mjög skýrt til hvers sé ætlast og hvaða árangri við ætlum að ná,“ segir Ómar.
„Þetta er í mínum huga of óljóst. Það er forsenda fyrir því að börnum líði vel í námi, og geti náð tökum á því, að þau viti til hvers sé ætlast af þeim.“
Spurð hvort skólarnir gætu samkvæmt gildandi reglum tekið upp litakerfi eða eitthvað þvíumlíkt við einkunnagjöf svarar Auður því játandi.
„Skólarnir verða hins vegar að gera grein fyrir því í skólanámskrá sinni hvaða matskvarði er notaður í skólanum, þannig að öllum megi vera ljóst hvaða matskvarði er notaður og fyrir hvað hann stendur,“ segir Auður.
„Þegar barn klárar til dæmis 6. bekk þá fær það vitnisburð í bókstaf, lit, tölu eða umsögn. Það er á ábyrgð skólans að skrá það í skólanámskrána sína og útskýra sinn matskvarða.“
Þar að auki má gefa barni vitnisburð í táknum.
Skólum varð skylt að gefa útskriftarnemum einkunnir í formi bókstafa í stað tölustafa vorið 2016.
Breytingin var í samræmi við áætlanir í aðalnámskrá grunnskólanna frá 2011. Þá var hún jafnframt í takt við fyrirkomulag einkunnagjafar í nágrannalöndunum.
Eins og fyrr segir fylgir hverri einkunn lýsing eða svokallað matsviðmið.
Áttu lýsingarnar að samræma að hluta til einkunnagjöf milli skóla og gefa nemendum, foreldrum og viðtökuskólum betri upplýsingar en áður um hvað fælist í einkunnunum.