Óráðlegt er að leggja af samræmd könnunarpróf án þess að nýtt kerfi sé tilbúið til notkunar sem getur leyst þau af hólmi. Þetta er mat tveggja prófessora og dósents við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Telja þeir afnám samræmds námsmats leiða til lakari árangurs nemenda og til aukins misréttis í menntakerfinu.
„Alkunna er að íslenskt skólakerfi stendur mjög höllum fæti og einnig að fyrirkomulag námsmats hefur lykilhlutverki að gegna í virkni menntakerfisins. Hér er því um afdrifaríkar ákvarðanir að ræða sem munu hafa veruleg áhrif á menntun íslenskra ungmenna næstu árin,“ segir í umsögn Freyju Hreinsdóttur, prófessors í stærðfræði og stærðfræðimenntun, Hauks Arasonar, dósents í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun, og Meyvants Þórólfssonar, prófessors emeritus í námskrárfræði, námsmati og náms- og kennslufræðum.
Umsögnin birtist í samráðsgátt stjórnvalda þar sem kynnt eru áform um að leggja niður samræmd könnunarpróf.
Eins og mbl.is og Morgunblaðið hafa fjallað um er nýja námsmatið, svokallaður matsferill, enn í þróun og getur því ekki leyst af samræmdu prófin, sem leggja á af og hafa ekki verið lögð fyrir í nokkur ár.
Þremenningarnir gagnrýna umsagnarfrestinn og krefjast þess að hann verði lengdur. Segja þau hann lenda á miðju sumarleyfistímabili.
Í umsögninni er vísað í skýrslu Evrópuráðsins frá árinu 2022 þar sem fram kemur að í þeim löndum þar sem haldin eru samræmd próf í stærðfræði nái hærra hlutfall nemenda lágmarksfærni í greininni.
„Hér á Íslandi má sjá að lakari árangur á PISA hefur fylgt í kjölfar afnáms samræmdra prófa. Hér er ekki verið að halda fram að afnám slíkra prófa sé eina ástæða lakari árangurs heldur að afnámið vegi þungt.“
Aftur á móti sé samræming í menntakerfinu líkleg til að stuðla að auknu jafnrétti til menntunar.
Er í umsögninni vísað til samanburðarrannsóknar sem bendir til þess að í menntakerfum þar sem stöðlun er meiri reynist ójöfnuður aftur á móti minni.
Mun ítarlegri umfjöllun um vanda íslenska skólakerfisins er að finna í Morgunblaðinu í dag.