Skriða féll fram á Reykjastrandarveg í Skagafirði fyrr í dag og líklegt þykir að fleiri skriður falli á næstu dögum vegna mikillar úrkomu á Norðurlandi.
„Við fengum bara tilkynningu frá Vegagerðinni að það væri aurskriða á veginum, vegi 748 [Reykjastrandarvegi],“ segir Martina Stefani, sérfræðingur við ofanflóðahættumat hjá Veðurstofu Íslands. Liggur vegurinn norður Reykjaströnd frá Sauðárkróki.
„Þau komu að því í morgun, þau eru búin að hreinsa og vegurinn er aftur opinn,“ bætir Martina við í samtali við mbl.is
Lægð er yfir Norðurlandi og snjóað hafði til fjalla í Eyjafirði í morgun. Bæði Hlíðarfjall og Súlur voru snævi þakin.
Martina bendir á að skriður falli oft um leið og hættir að rigna. Spáð hafði verið talsverðri rigningu á norðanverðu á Tröllaskaga í dag og gær – og hefur spáin gengið eftir að sögn Martinu.
„Það var mikil rigning á veginum, við erum ekki með neinn úrkomumæli akkúrat á þessu svæði en þetta var bara sama lægð og fór yfir og er enn yfir öllum Tröllaskaga.“
Samfara úrkomunni hefur verið hvöss vestanátt og hiti á bilinu 6-10 stig. Við slíkar aðstæður má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum en samfara því eykst hætta á skriðum og grjóthruni í bröttum hlíðum.
Sérfræðingurinn ráðleggur því landsmönnum að sýna aðgát næstu daga á þekktum skriðusvæðum.
„Ég myndi mæla með því að vera vakandi fyrir þessu næstu tvo daga. Og forðast brattar hlíðar og bara... horfa upp,“ segir Martina og hlær örlítið við.