Snjór til fjalla ekki eitt af því sem kætir á sumrin

Í Hálöndum við rætur Hlíðarfjalls mátti sjá að snjóað hafði …
Í Hálöndum við rætur Hlíðarfjalls mátti sjá að snjóað hafði til fjalla í nótt. Ljósmynd/Auður Eva Ásberg

Snjóað hafði til fjalla í Eyjafirði í morgun og voru bæði Hlíðarfjall og Súlur snæviþakin. 

Gul viðvörun gengur nú yfir landið og varar Veðurstofa Íslands við norðvestanátt með úrhellisrigningu við Strandir og á Norðurlandi vestra og allhvassri vestanátt og snörpum vindhviðum á Norðurlandi eystra. Viðvörunin er í gildi þar til síðdegis í dag.

Milt veður þrátt fyrir snjó 

Snæviþaktar Súlur blöstu við í morgunsárið.
Snæviþaktar Súlur blöstu við í morgunsárið. Ljósmynd/Auður Eva Ásberg

„Það er margt sem hressir og kætir á sumrin en snjór í fjöll er ekki eitt af því,“ segir í tölvupósti sem mbl.is barst frá Auði Evu Ásberg í morgun með myndsendingu úr Hálöndum þar sem sjá mátti að meðal annars hafði snjóað í Hlíðarfjall og Súlur. 

Þrátt fyrir snjó til fjalla segir Auður milt veður á Akureyri og um þrettán gráðu hita. 

Ekki snjóað á fjallvegum

Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands sagði í samtali við mbl.is að Veðurstofunni hefðu ekki borist neinar ábendingar um snjó til fjalla. 

Hann taldi líklegt að snjóað hefði í háfjöllin á Norðurlandi vestra en sagði erfitt að segja til um það þar sem skyggni til fjalla var lítið. Það hafði þó ekki snjóað í fjallvegum að hans sögn. 

Eins ræddi mbl.is við skálavörð í Laugafelli sem er staðsett um 20 km suður af botni Eyjafjarðardals og um 15 km norðaustur af Hofsjökli. Sagði hann Laugafellshnjúk örlítið gráan, en það væri þó ekki grátt í Laugafelli. Einungis kalt og hvasst. 

Veðurvefur mbl.is 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert