Lengsta hjólreiðakeppni Íslands hefst í vikunni

Hjólreiðamaður við Svalvoga.
Hjólreiðamaður við Svalvoga. Ljósmynd/Ágúst G. Atlason

Á morgun leggja af stað 32 hjólreiðamenn frá Ísafirði í um 1.000 km langa ferð um Vestfirði þar sem þeir keppa í lengstu hjólreiðakeppni landsins. Ber keppnin nafnið Arna Westfjords Way Challenge og stendur í fimm daga.

Tyler Wacker er einn af keppnisstjórunum, en hann er einnig meðeigandi Cycling Westfjords ehf. og eigandi hjólreiðaverslunarinnar Fjord Hub. 

Tyler segir í samtali við mbl.is að undirbúningurinn fyrir keppnina hafi gengið vel, sérstaklega þar sem keppnin sé nú haldin í þriðja skipti og keppnishaldarar hafi öðlast reynslu í fyrri keppnum og viti við hverju eigi að búast. 

Keppendur að hjóla fram hjá Dynjanda.
Keppendur að hjóla fram hjá Dynjanda. Ljósmynd/Ágúst G. Atlason

Keppnin fer fram á fimm dögum þar sem hjólað er í fjóra daga og einn dagur er hvíldardagur, en fyrsti dagur keppninnar er 23. júlí. Þátttakendur hjóla um 250 km á dag og fá tækifæri til að skoða marga menningarlega staði á leiðinni. Er heildartími keppenda stöðvaður á menningarstoppum þannig að þeir fái nægan tíma til að njóta áhugaverðra staða á Vestfjörðum. „Við erum eina keppnin í heiminum sem hefur blandað menningarlegum gildum inn í keppni,“ segir Tyler. 

Keppendur hjóla leiðina í alls konar aðstæðum.
Keppendur hjóla leiðina í alls konar aðstæðum. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson
Hjólað saman í fallegu landslagi.
Hjólað saman í fallegu landslagi. Ljósmynd/Ágúst G. Atlason

Veita menningarverðlaun 

Veitt eru verðlaun fyrir besta tímann, frá fyrsta til þriðja sætis. Einnig eru veitt menningarverðlaun til þess keppanda sem lagði mest af mörkum til að njóta menningarinnar á leiðinni. Tyler segir að vel sé tekið á móti þátttakendum og að stemmingin sé alltaf góð. 

Keppnin býður einnig upp á þann valkost að hjóla aðeins einn dag, frá Patreksfirði til Ísafjarðar, sem er 211 km leið. „Það er stóra keppnin og svo er litla keppnin,“ segir Tyler, en sú keppni heitir Arctic Fish Midnight Special og í ár taka 15 manns þátt í henni. 

Keppendur leggja af stað.
Keppendur leggja af stað. Ljósmynd/Ágúst G. Atlason

Síðasti dagurinn erfiðastur og fallegastur 

„Síðasti dagurinn er erfiðastur og fallegastur. Við bættum við Arctic Fish Midnight Special í fyrra sem gerir fólki kleift að hjóla aðeins síðasta daginn, en það er einnig keppni ein og sér. Þannig að þeir geta hjólað 211 km leiðina og hjólað með þeim sem eru að taka þátt í stóru keppninni,“ bætir hann við. 

Á síðasta deginum er meðal annars farið fram hjá Dynjanda, um hina mikilfenglegu Kjaransbraut, sem einnig er þekkt sem Svalvogavegur, Gemlufallsheiði og Breiðdalsheiði áður en komið er til Ísafjarðar.

„Við erum sérstaklega spennt fyrir því að hinir frægu íslensku hjólreiðamenn Ingvar Ómarsson og Hafdís Sigurðardóttir eru að taka þátt í stóru keppninni. Ingvar hjólaði Arctic Fish Midnight Special í fyrra og hann vissi að hann yrði að koma aftur fyrir stóru keppnina,“ segir Tyler. 

Tyler Wacker er einn af skipuleggjendum Westfjords way challenge.
Tyler Wacker er einn af skipuleggjendum Westfjords way challenge. Ljósmynd/Josh Weinberg

„Þetta er mikil hátíð, það er fullt af fólki sem kemur að horfa á hjólreiðamennina leggja af stað,“ segir Tyler.

„Við byrjum á Ísafirði og förum svo suður. Litlibær, Heydalur, Reykjanes, Bjarnarfjörður, Drangsnes, Hólmavík, Strandir, Borðeyri, Búðardalur, Fellsströnd, Skarðsströnd, Króksfjarðarnes, Flókalundur, Birkimelur, Patreksfjörður, Bíldudalur, Dynjandi, Hrafnseyri, Þingeyri, Kaffi Sól og svo endað á Ísafirði,“ segir Tyler. 

Að sögn Tylers er fullt af fólki sem fylgist með keppninni á netinu, en hægt er að fylgjast með staðsetningu þátttakenda í gegnum alla keppnina. 

Keppendur í menningarstoppi á Litlabæ.
Keppendur í menningarstoppi á Litlabæ. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert