„Það er þá bara alltaf orðrómur“

Börn úr ákveðnum grunnskólum standa sig betur á könnunarprófi Verzlunarskólans, …
Börn úr ákveðnum grunnskólum standa sig betur á könnunarprófi Verzlunarskólans, þrátt fyrir að hafa fengið sömu einkunnir og nemendur úr öðrum skólum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Kristín Kolbeins, formaður Skólameistarafélags Íslands og skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, kveðst ekki hafa séð annað en að grunnskólar vandi sig mikið við námsmatið.

Segir hún umræðuna um grunnskólana ekki neikvæða hjá félagi skólameistara og kveðst telja einkunnaverðbólgu vera orðróm sem gangi manna á milli.

Ekki séð og aldrei heyrt

„Mér finnst svo mikið talað án þess að það sé nokkuð á bak við. Ég sé þetta ekki. Auðvitað er ég hérna í Vestmannaeyjum og þar er bara einn grunnskóli og flestir koma þaðan. Ég sé ekki þessa einkunnaverðbólgu þar, fólk er bara að vanda sig og það hefur aldrei komið til tals meðal skólameistara, því við tölum nú alveg saman, að það séu einhverjir ákveðnir grunnskólar sem séu með hærri eða lægri einkunnir heldur en aðrir. Ég hef aldrei heyrt það.“

Segir hún að það skorti ef til vill sameiginlegan skilning á því hvað það þýði að nemandi sé á réttri leið.

Samanburður skipti ekki endilega mestu máli heldur að nemendur nái grunnfærni til þess að komast inn í framhaldsskólana og geti átt gott líf.

Helga Kristín Kolbeins, skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum og formaður Skólameistarafélags …
Helga Kristín Kolbeins, skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum og formaður Skólameistarafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Segir ekkert misræmi

Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem kynnt eru áform um að leggja niður samræmd könnunarpróf til frambúðar, segir að könnunarpróf sem Verzlunarskóli Íslands hafi lagt fyrir nýnema sýni misræmi milli einkunnagjafa grunnskóla.

Standa nemendur úr ákveðnum grunnskólum sig betur á könnunarprófinu í samanburði við nemendur úr öðrum grunnskólum, þó svo að einkunnir nemendanna við útskrift úr grunnskóla séu þær sömu.

„Við eigum engin gögn um það, þannig að það er þá bara alltaf orðrómur, ég hef sjálf persónulega ekki reynslu af því að það sé einhver munur á. Ég hef ekki séð þennan mikla mun á nemendum eftir því úr hvaða grunnskóla þeir koma, ekki ef þeir eru með svipaða einkunn,“ segir Helga Kristín spurð hvort hún hafi orðið vör við ósamræmi í einkunnagjöf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert