Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að aðeins einn sé með hermannaveikina eftir að legíónella fannst í lögnum í íbúðahúsi í Vatnsholti.
Þrír hafa smitast af veikinni á þessu ári, sem Guðrún segir að sé venjulegur fjöldi. Fjórir smituðust í fyrra.
Guðrún segir að einstaklingurinn hafi verið mjög lasinn en sé að jafna sig.
Legíonella-bakterían þolir hitastig frá 0-63°C, en kjörhitastig hennar er um það bil 30-40°C. Bakterían getur lifað árum saman í vatnstönkum við 2-8°C og sest oft í lokaða enda pípulagna í stórum byggingum þar sem vatnið stendur kyrrt og hitastigið er ekki hátt.
Getur þetta gerst í einbýlishúsum?
„Já, það er ekki útilokað. Þetta er algengara í stærri byggingum en það er ekkert útilokað að þetta gerist í einbýlishúsum,“ segir Guðrún.
Bakterían er þó hættulítil fyrir fullfríska og unga einstaklinga en hún getur verið hættuleg fyrir þá sem hafa undirliggjandi áhættuþætti. Legíonella-smit er þó óalgengt og að sögn Guðrúnar er þetta eitthvað sem fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur staðið að útskolun síðustu daga í Vatnsholti og stefnir á að taka sýni á morgun til þess að athuga hvort bakterían sé enn í lögnunum.