Völlurinn of lítill fyrir alþjóðaflug

Áformað er að stytta flugbrautina á vellinum.
Áformað er að stytta flugbrautina á vellinum. mbl.is/Sigurður Bogi

Bragi Bjarnason bæjarstjóri Árborgar segir styttingu annarrar flugbrautarinnar á Selfossflugvelli ekki skýrast af skorti á byggingarlandi. Hins vegar sé ljóst að núverandi völlur sé of lítill fyrir alþjóðaflug en hugmyndir um nýjan alþjóðaflugvöll hafi verið til umræðu.

Eins og Morgunblaðið hefur sagt frá hafa skipulagsyfirvöld í Árborg auglýst breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins Árborgar 2020-2036 sem felur í sér að austurvestur-flugbrautin á Selfossflugvelli er stytt í aðalskipulagi svo hún sé aðeins á landi í eigu Árborgar en ekki á landi í einkaeigu. Eftir breytingu verði vesturbrautin um 850 metrar að lengd.

Áfram um 1.000 metrar

Bragi segir þetta rétt og að síðan sé gert ráð fyrir að norðursuður-brautin, aðalbraut vallarins, geti færst í suður frá íbúabyggðinni. Hún verði þá áfram um 1.000 metrar að lengd.

Jón Hörður Jónsson, flugstjóri og formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), sagði við Morgunblaðið fyrir helgi að verið væri að þrengja að flugvellinum bæði að sunnanverðu með iðnaðarhverfi og að norðanverðu meðfram bökkum Ölfusár.

Bragi segir aðspurður að núverandi flugvallarstæði hamli ekki uppbyggingu í bænum.

„Bærinn getur þróast í suðurátt í átt að ströndinni. Þar getur hann þróast næstu tugi ára og einnig austur fyrir og inn í Flóahrepp. Þar er mikið byggingarland sem getur orðið að íbúa- og atvinnubyggð til framtíðar.

Síðan eru það hugmyndir um að byggja upp alþjóðaflugvöll í framtíðinni. Það er ljóst að ef gerður yrði flugvöllur fyrir stærri flugvélar þyrfti að finna honum annan stað. Fyrir nokkrum árum var rætt um nýjan alþjóðaflugvöll, einnar brautar flugvöll, og eðlilega hefur sú umræða komið aftur upp á yfirborðið eftir jarðhræringarnar á Reykjanesi. En það er langtímamál sem þarf að skoða fyrir Ísland og suðvesturhornið í tengslum við hvað er að gerast í Reykjavík og nýlega yfirlýsingu Sigurðar Inga [Jóhannssonar fjármálaráðherra] um Hvassahraunið,“ segir Bragi.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, mánudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert