Dýfði sér óhræddur í Stuðlagil

Viktor Yngvi Ísaksson, 19 ára gamall áhugamaður um dýfingar.
Viktor Yngvi Ísaksson, 19 ára gamall áhugamaður um dýfingar. Ljósmynd/Aðsend

Hinn 19 ára gamli og áhættusækni Viktor Yngvi Ísaksson tók þá djörfu ákvörðun að dýfa sér í Stuðlagil fyrir skemmstu. Hann hefur stundað dýfingar í náttúrunni í þrjú ár og hefur öðlast talsverða reynslu við þessa iðju sína á þeim tíma.

„Ég er að ferðast í kringum landið, sjá fullt af mismunandi stöðum og þegar ég var kominn þangað var þetta bara svo fallegt og fullkomið fyrir stökk þannig ég manaði mig upp í þetta,“ segir Viktor, spurður hvað hafi komið til að hann ákvað að taka dýfu á þessum fjölsótta stað.

Stakk hausnum ofan í vatnið og kannaði aðstæður

Spurður hvernig hann geti verið viss um að lenda á réttum stað segir Viktor að oftast sé hann með fólki og þá er einn sem kafar niður að botni vatnsins og kannar aðstæður. Þar sem Viktor var einn í þetta sinn, stakk hann hausnum ofan í vatnið og sá að það var nógu djúpt. Þá hafði hann einnig séð myndband af vini sínum hoppa af sama stað.

Viktor bjóst við því að vatnið yrði ískalt við lendingu en segir hann það hafa svo reynst notalegt.

Tvöfaldur Íslandsmeistari í dauðadýfingum

„Jú, ég er búinn að vera hoppa af klettum í þrjú ár. Ég er núna tvöfaldur Íslandsmeistari í dauðadýfingum,“ segir Viktor spurður hvort það þurfi ekki mikla æfingu og reynslu til að stökkva úr svona mikilli hæð.

Dauðadýfa segir Viktor virka þannig að það lítur út fyrir að þú sért að fara lenda á maganum, en rétt áður maður snertir vatnið lokar maður líkamanum í eins konar samloku, þar sem hendur og fætur koma saman.

Alltaf eitthvað stress en mikilvægt að mana sig upp

Viktor segist hafa verið hræddur við sjóinn áður en hann byrjaði að stunda dýfingar fyrir þremur árum. Þá frétti hann af því að það væri Íslandskeppni í dauðadýfu og ákvað að slá til, þrátt fyrir að hann hefði einungis þrjár vikur til stefnu. Hann hafði því ekki langan tíma til að æfa sig fyrir Íslandsmót í grein sem hann hafði ekki áður keppt í. 

„Ég æfði á hverjum degi og þetta heppnaðist rosalega vel"

„Jú, þegar maður er kominn upp í ákveðna hæð eða fer að gera ákveðin trikk þá verður maður alltaf stressaður en maður þarf eiginlega bara að ná að mana sig upp í þetta,“ segir Viktor aðspurður.

Hann bætir við að hann hafði aldrei áður komið að Stuðlagili og bjóst ekki endilega við því að koma þangað aftur. 

„Ég bara þurfti að nýta þetta tækifæri," segir Viktor og reyndist Stuðlagil vera svolítið hærra en hann hafði búist við.

Stuðlagil, þar sem Viktor var í lausu lofti er hann …
Stuðlagil, þar sem Viktor var í lausu lofti er hann dýfði sér í vatnið. mbl.is/Jón Pétur

Hefur æft parkour frá tíu ára aldri

Þá hefur Viktor æft parkour í níu ár, eða frá því hann var aðeins tíu ára gamall.

Hann var í fimleikum og júdó sem barn og fannst honum það einhvern vegin ekki nógu frjálst. Var hann þá mikið að hoppa fram af þökum og sýna alls kyns kúnstir sem barn og stakk mamma hans upp á því að hann færi að æfa parkour.

Viktor hefur tognað nokkrum sinnum og fengið höfuðhögg en segir hann það vera fylgifisk slíkrar iðju.

Stökk úr 21 metra hæð í Noregi

Í sumar keppti hann í dauðadýfingakeppni í Noregi fyrir framan þúsundir manna þar sem hann stökk úr 12 metra hæð. Í sömu ferð stökk hann ásamt nokkrum félögum sínum úr 21 metra hæð.

Spurður hvort hann sé með einhver markmið sem hann langar að ná segist Viktor hafa allavega fimm staði sem hann dreymir um að dýfa sér fram af og gera ákveðnar kúnstir í loftinu.

Hann segist ekki eiga neinn einn endanlegan draum því um leið og hann nær einu markmiði vill hann alltaf halda lengra og lengra.

Mikilvægt að trúa á sig sjálfan

„Æfa í réttum aðstæðum og treysta á sjálfan sig. Um leið og maður treystir á sig sjálfan getur maður farið að gera þetta [stökkva og dýfa sér] alls staðar og alltaf þegar maður stekkur þá styrkist maður bæði andlega og líkamlega og verður meira tilbúinn í næstu skref. Bara halda áfram og finna rétta félagsskapinn,“ segir Viktor, spurður hvort hann sé með einhver ráð fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert