Kvika heldur áfram að safnast undir Svartsengi samkvæmt nýjustu gögnum Veðurstofu. Búast má við kvikuhlaupi eða eldgosi á næstu tveimur til þremur vikum.
Frá þessu greinir Veðurstofan í tilkynningu.
Segir þar meðal annars að ekki sé hægt að útiloka að gossprunga opnist innan Grindavíkur. Þó er talið líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en hún myndi svo opnast innan bæjarmarkanna.
Bent er á að mögulega geti hraun, sem komi upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík, flætt ofan í sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna.
Veðurstofan hefur gefið út nýtt hættumat og hækkar þar hættustig á öllum svæðum, nema á svæði 7, þar á meðal í Grindavík.
Hættumatið gildir til 30. júlí að öllu óbreyttu.
„Allar okkar mælingar og útreikningar benda til þess að kvikusöfnunin undir Svartsengi haldi áfram með jöfnum hraða,“ er haft eftir Michelle Maree Parks, sérfræðingi í aflögun á Veðurstofu Íslands.
„Það er ekki óeðlilegt að við fáum sveiflu í mælingar á landrisinu milli einstakra daga og þess vegna er mikilvægt að horfa á heildarmyndina út frá GPS-mælingum, gervitunglamyndum og líkönum yfir lengra tímabil. Það eru engar vísbendingar í okkar gögnum sem benda til annars en að búast megi við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur til þremur vikum eða svo.“
Tekið er fram að skjálftavirknin síðustu daga hafi verið mjög lítil. Tíu skjálftar hafi greinst í grennd við kvikuganginn í Sundhnúkagígaröðinni síðastliðinn sólarhring og um 90 síðastliðna viku.
„Flestir þeirra eru undir einum að stærð og eru á svipuðum slóðum og í fyrri atburðum. Til samanburðar mældust rúmlega 50 skjálftar daglega í aðdraganda síðasta goss. Skjálftavirknin fer hægt vaxandi dag frá degi ef horft er til síðustu vikna sem er í takti við þróun kvikusöfnunar undir Svartsengi,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Samkvæmt líkanreikningum er líklegast að heildarmagnið sem bæst hefur við frá síðasta eldgosi nálgist 16 milljónir rúmmetra á næstu dögum, en miðað við fyrri gos þarf 13 til 19 milljónir rúmmetra til að koma af stað gosi eða kvikuhlaupi.
„Þær sviðsmyndir sem við birtum í dag eru byggðar á nýjustu gögnum og greiningum og þær gefa tilefni til þess að hafa áhyggjur af því að hraun geti náð inn fyrir varnargarða við Grindavík,“ er haft eftir Matthew J. Roberts, framkvæmdastjóra þjónustu- og rannsóknasviðs á Veðurstofu Íslands.
„Við þurfum því að vera búin undir þann möguleika að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða ofan bæjarins geti leitað ofan í sprungukerfið sunnan Hagafells og leitt hraunstraum inn fyrir bæjarmörkin.“
„Reynslan frá eldgosinu í janúar segir okkar að við getum ekki útilokað þann möguleika á að gossprunga opnist innan Grindavíkur. En í því tilfelli er líklegast að gossprunga myndi fyrst opnast norðan við bæinn áður en sprunga opnist innan bæjarmarkanna,“ segir hann og heldur áfram:
„Þessu til viðbótar sýna hraunflæðilíkön að ef gýs við Hagafell gæti hraunflæði lokað flóttaleiðum á landi út úr bænum á nokkrum klukkustundum eftir að gos hefst.“