Fyrir Reykjavíkurmaraþonið í ár verður í boði að búa til persónuleg hlaupanúmer en maraþonið fagnar nú 40 ára afmæli.
„Frá fyrsta hlaupinu hefur ýmislegt breyst, bæði í samfélaginu og hlaupinu sjálfu,“ segir í tilkynningu en hlaupið fer fram 24. ágúst, á Menningarnótt.
Yfirskrift hlaupsins í ár er Fyrsta hlaupið og segir í tilkynningunni að hún sé óður til þeirra fjölmörgu fyrstu skrefa sem hafa verið stigin í hlaupinu og þeirra þáttaskila sem þau hafa markað.
Vefsíðan fyrstahlaupid.is hefur verið opnuð og geta hlauparar og aðsendur hlaðið þar upp mynd og búið til sitt persónulega hlaupanúmer. Allir hlauparar munu þó áfram bera hefðbundin keppnisnúmer.
Fjórar vegalengdir verða í boði í ár; maraþon, hálfmaraþon, 10 kílómetra hlaup og 3 kílómetra skemmtiskokk.