Hreinar línur í veðrinu næstu tíu daga

Rauði liturinn er afgerandi í spánni fyrir næsta sunnudag.
Rauði liturinn er afgerandi í spánni fyrir næsta sunnudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurspáin fyrir Ísland þykir nokkuð skýr fyrir næstu tíu daga. Þetta sýna gögn Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greinir frá þessu á veðurvefnum Bliku og leggur út frá korti frá Veðurstofu Íslands sem unnið er upp úr spá reiknimiðstöðvarinnar. 

Gera má ráð fyrir vætusömu veðri og mörgum rigningardögum á Suður- og Vesturlandi næstu tíu daga. Veður á Norðausturlandi verður að jafnaði öllu betra og einungis útlit fyrir einn rigningardag.

„Næstu 10 daga er spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar nokkuð skýr. Kannski ekki frá degi til dags, en veðurlagið er á hreinu,“ skrifar Einar.

Spá um loftþrýstifrávik dagana 22. júlí til 1. ágúst.
Spá um loftþrýstifrávik dagana 22. júlí til 1. ágúst. Kort/Veðurstofa Íslands

Ríkjandi vindáttir

Inntur eftir frekari útskýringum á pistli sínum segir Einar í samtali við mbl.is að næstu tíu daga sé spáð lægðargangi yfir landið sem hugsanlega muni standa lengur yfir.

Þetta megi sjá með því að útbúa spákort sem sýnir meðalloftþrýsting næstu tíu daga, en slíkt kort sýnir nú „myndarlega lægð“.

Að sögn Einars má jafnframt sjá ríkjandi vindáttir með slíku korti, eða vindáttir úr suðri og vestri og þar á milli. Hann áréttir þó að spákortið segi ekkert til um það hvernig veðrið verði frá degi til dags, heldur einungis almennt um einkenni tíðarinnar og vindafarsins næstu tíu daga.

„Meginreglan er sú á sumrin að ef við erum með lægðir hérna nálægt okkur þá þýðir það skýjadumbungur og vætutíð. Þar er uppstreymi lofts, rakinn þéttist og skilar úrkomunni. En ef við erum með hæðarsvæði og hæðarfrávik nærri okkur þá er reglan frekar sú að það er minna um ský, sólríkt og lítið um úrkomu,“ segir Einar til enn frekari útskýringa og bætir við: 

„Þetta er svona einfalda reglan þó hún sé auðvitað ekki algild,“ enda geti verið lægðir en þurrt þar sem vindur stendur af landi svo dæmi sé tekið. 

Spá um úrkomufrávik dagana 22. júlí til 1. ágúst.
Spá um úrkomufrávik dagana 22. júlí til 1. ágúst. Kort/Veðurstofa Íslands

Koma þurrir dagar inn á milli 

Eins og fram kemur hér á undan er um spákort, eða meðalkort, að ræða og því segir það ekki til um veðrið frá degi til dags næstu tíu daga.

Ekki er því hægt að segja að það verði rigning á Suður- og Vesturlandi næstu tíu daga og sól á Norðausturlandi. 

„Það geta alveg komið þurrir dagar inn á milli og þó það sé oftast nær spáð sól og blíðu fyrir austan þá er að minnsta kosti einn rigningardagur sem ég sé í nýjustu spánni,“ segir Einar og útskýrir að það sem einkenni meðallægðir sem þessar sé gangur í veðrinu eða dálitlar breytingar frá degi til dags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert