Mohamad ekki sá eini: Þúsundir skipta ár hvert

Margir breyta um nafn ár hvert en mikilvægt er að …
Margir breyta um nafn ár hvert en mikilvægt er að fylgja réttum verkferlum. mbl.is/Eggert

„Ef lögheimili þitt er skráð á Íslandi og þú uppfyllir skilyrði mannanafnalaganna, þá eiga íslensk mannanafnalög við þig,“ segir Soffía Svanhildar- Felixdóttir, deildarstjóri þjónustu og skráningar hjá Þjóðskrá, í samtali við mbl.is.

Nafnbreytingar eru algengar að sögn Soffíu og eru um 3000 tilvik um það á ári hverju. Bæði óskar fólk eftir eiginnafnsbreytingum og að bæta við kenninafni.

Hún bætir við að lögheimilisskráningin sé það sem skipti mestu máli þegar kemur að nafnbreytingum, því ef þú ert með íslensk lögheimili gilda um þig íslensk lög.

Má bara skipta um nafn einu sinni en þó eru undanþágur

„Reglan er sú að það má aðeins skipta um nafn einu sinni en svo eru tilvik að undangengnum mjög ströngum rökstuðningi og slíku, þar sem það hefur verið heimilað að breyta í annað sinn, en það er nokkuð sjaldgæft,“ segir Soffía og bætir við að stór hluti af þessum undanþágum eru ef fólk vill breyta nafninu sínu til baka í það gamla.

„Meginreglan með kenninöfn er að það er aðeins hægt að kenna sig við móður og föður eða hafa ættarnafn sem er réttur til samkvæmt lögunum. Þetta undanþáguákvæði á bara við um kenninöfnin, mannanafnalögin eru smíðuð þannig. Auðvitað er síðan ákveðinn þröngur rammi um eiginnöfnin að þau þurfa að vera á mannanafnaskrá,“ segir Soffía, spurð af hverju strangari reglur séu í gildi um breytingu kenninafna.

Með sterkum rökum er hægt að fá undanþáguákvæði sem fellur ekki undir það sem greint var að ofan. Slíkar undanþágur eru ekki afgreiddar með léttúð og þarf að meta hvert tilvik fyrir sig vel.

Kostar að biðla til mannanafnanefndar

Til þess að breyta um nafn þarf að sækja um það hjá Þjóðskrá og algengast er að það sé gert á vefnum.

„Hvert og eitt mál þarf að skoða vel til að athuga hvort umrædd beiðni falli að skilyrðum eða ákvæðum mannanafnalaganna. Því er mjög erfitt að segja hvað ferlið tekur langan tíma, það fer bara eftir eðli beiðninnar,“ segir Soffía aðspurð.

Nafnbreytingar eru gjaldfrjálsar og hægt að breyta nafni sínu í hvað sem er, svo lengi sem nafnið sé á mannanafnaskrá. Ef svo er ekki fer beiðnin í gegnum mannanafnanefnd og kostar ferlið rúmar 4000 krónur.

Spurð hvort það sé einhver ákveðinn samfélagshópur sem sækir um nafnbreytingu segir Soffía ekki hafa upplýsingar um það þar sem megnið af beiðnunum fara fram rafrænt.

Gefur ekkert upp um undanþágu Kourani

Spurð hvort það sé óvenjulegt að fólk með erlend nöfn, líkt og Mohamad Kourani, eða nú, Mohamad Th. Jóhannesson, skipti um kenninafn þegar það eru svona strangar reglur varðandi þau, segir Soffía ekki vera með tölur yfir algengi slíkra mála.

Sömuleiðis mátti hún ekki tjá sig um af hverju Kourani fékk undanþágu til að breyta kenninafni sínu úr erlendu yfir í íslenskt.

„Ég má ekki tjá mig um tiltekin mál og hvað býr að baki þeim," segir Soffía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert