Neitaði að taka þátt í PISA-könnuninni

Rimaskóli í Grafarvogi.
Rimaskóli í Grafarvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Veistu, ég sagði bara nei, þetta eru sömu krakkar og tóku samræmdu prófin, þau próf frusu og voru í endalausu rugli, ég hugsaði að börnin mín hefðu miklu meira að gera heldur en að sitja og taka einhver próf sem eru ekki að segja neinn skapaðan hlut.“

Þetta segir Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjóri Rimaskóla, um PISA-könnunina sem gerð var í grunnskólum landsins árið 2022.

Árangur íslenskra nemenda versnaði þar til muna frá fyrri árum, þar sem þróunin hafði þó verið niður á við, og hvergi var fallið meira innan OECD en hér á landi.

Segist hafa staðið „með krökkunum“

Þóranna segist hafa verið með sterkan og góðan nemendahóp sem hafi átt að taka þátt í könnuninni, netþjónn hafi klikkað úti í heimi og því ekki verið hægt að framkvæma hana. Hún hafi því verið beðin um að leggja könnunina fyrir annan dag.

Því hafi hún neitað.

„Ég var ekkert vinsæl, en stundum þarf maður bara að standa með krökkunum.“

Samræmdu prófunum hætt eftir kerfishrun

Mjöll Matth­ías­dótt­ir, formaður fé­lags grunn­skóla­kenn­ara, sagði í samtali við mbl.is í gær að ein af ástæðum þess að samræmdu prófin voru lögð af hér á landi væri að tölvukerfin í kringum fyrirlagninguna hefðu hrunið.

„Sam­ræmdu próf­in voru búin með sitt skeið og það var verið að reyna að breyta þeim á síðustu árum fram und­ir árið 2020. Gera þau meira ra­f­ræn og þau voru orðin eitt­hvað sem hægt var að lesa út úr með tölvu­tækn­inni,“ sagði Mjöll.

„Hins veg­ar réðu þeir sem voru að leggja þessi próf fyr­ir ekki við þessa tækni. Þeir voru bara ekki með nægi­lega góða tækni í hönd­un­um. Ein af ástæðum fyr­ir að það var hætt að leggja þau fyr­ir var að tölvu­kerf­in bara hrundu.“

Ekkert í stað prófanna þrátt fyrir áform

Sam­ræmd próf hafa ekki verið hald­in hér á landi síðustu ár og ekk­ert hef­ur komið í stað þeirra, þrátt fyr­ir yf­ir­lýst áform þess efn­is þegar þau voru lögð af.

Afnám þeirra hefur hlotið gagnrýni úr ýmsum áttum, meðal annars innan úr menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Tveir prófessorar og dósent við deildina telja af­nám sam­ræmds náms­mats leiða til lak­ari ár­ang­urs nem­enda og til auk­ins mis­rétt­is í mennta­kerf­inu. Óráðlegt sé að leggja af sam­ræmd könn­un­ar­próf án þess að nýtt kerfi sé til­búið til notk­un­ar sem get­ur leyst þau af hólmi.

Þá þykir það einsdæmi að ekki séu samræmd próf í skólakerfinu hér á landi, þegar litið er til helstu nágrannalanda.

Hugsi yfir PISA-könnuninni

Þóranna ræðir við Morgunblaðið í dag um skólamál, sem hafa verið áberandi í umræðunni í kjölfar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins síðustu vikur.

„Ég er pínu hugsi yfir PISA-könnuninni sem var lögð fyrir rétt eftir að covid-takmarkanirnar voru lagðar af á Íslandi,“ segir Þóranna um ofangreinda könnun árið 2022.

„Allt í einu eiga allir að vera komnir í skólann, engar grímur og allt af stað. Það hrynja allir, það verða allir veikir, það vantar kennara og það vantar nemendur.“

Kennarar þekki krakkana best

Þóranna segir skólana sterka í að meta sína eigin nemendur og að kennarar þekki sína krakka best.

„Eitt próf segir ekki til um hver geta barnsins er, aldrei,“ segir Þóranna. Hún segir fullt af börnum hafa margt til að bera en vera ekki góð í að taka próf.

„Þau eru frábær sem leiðtogar, í verkefnastjórnun, að vinna alls konar áskoranir, en léleg í að taka eitthvert skriflegt krossapróf, ætlum við þá að segja: þú ert ekki góður námsmaður?“

Nálgast má viðtalið í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert