Segir parísarhjólið ekki vonbrigði

Metið verður í lok sumars hvort parísarhjólið muni rísa á …
Metið verður í lok sumars hvort parísarhjólið muni rísa á ný. mbl.is/Eyþór

Þó svo parísarhjólið á Miðbakka hafi ekki verið eins vinsælt og búist var við segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, að verkefnið sé ekki vonbrigði af hálfu borgarinnar. 

„Það er ekki svo að þetta sé að hafa einhver neikvæð áhrif á okkur,“ segir Dóra en borgin stendur ekki straum af rekstri Parísarhjólsins heldur sá sem rekur það, Taylor's Tivoli Iceland ehf.

Þá greiðir félagið borginni eina milljón á mánuði fyrir afnot af lóðinni.

Í kringum 150 á dag.

Í könnun Prósents, sem var gerð í júní, kemur fram að aðeins 15 prósent landsmanna töldu það líklegt að þau myndu fara í parísarhjólið í sumar, en 73 prósent Íslendinga höfðu ekki slíkan áhuga á hjólinu. 

Meðaltal gesta í hjólið í júní var í kringum 150 á dag. Þetta sagði Kamma Thordarson, verkefnastjóri í atvinnu- og borgarþróunarteymi Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið.

Þá sagði hún að rekstraraðilar vildu fá fleiri gesti í hjólið og þá sérstaklega heimamenn. 

Grátt veður hafi áhrif

Dóra segir að dræma aðsókn í Parísarhjólið sé mögulega að rekja til veðurs sumarsins, en sumarið í borginni hefur verið heldur grátt. 

Þá undirstrikar hún að verkefnið sé tilraunaverkefni og að metið verði í lok sumars hvort hjólið rísi aftur að ári liðnu.

„Þetta er bara tilraunaverkefni og kosturinn við svona verkefni er að þá er hægt að meta kosti og galla þessa fyrirkomulags og ákveðið þá í lok sumars hvort þetta verði gert aftur,“ segir Dóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert