„Þau eru ónæm fyrir alvarleika málsins“

Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félagsfræði og afbrotafræði við Háskóla Íslands.
Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félagsfræði og afbrotafræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félags- og afbrotafræði við Háskóla Íslands, segir það vel geta verið að ástæðan fyrir fleiri tilkynningum um áhættuhegðun barna sé einangrun á tímum samkomutakmarkana stjórnvalda.

„Það er nú þannig að afbrota- og félagsfræðingar hafa verið að fjalla um áhrifin, sem þessar miklu breytingar sem urðu á samfélaginu á meðan samkomutakmarkanir voru í gangi, myndu hafa á ungt fólk. Þessi einangrun og þessi truflun á hefðbundnu skólastarfi og frístundum,“ segir Margrét. 

„Það sem við vitum úr rannsóknum erlendis er að þó að flest ungmenni hafi jafnað sig á þessu tímabili, þá eru sterkar vísbendingar um að þau ungmenni sem stóðu höllum fæti fyrir faraldur, til dæmis vegna erfiðra fjölskylduaðstæðna – þau eru verr stödd eftir Covid-tímana.“

Tilkynningum um áhættuhegðun barna hefur fjölgað um 31,8% á fyrsta ársfjórðungi fyrir árin 2022 til 2024. 

Í takt við erlendar rannsóknir

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri barna- og fjölskyldustofu, segir að tilfellum ofbeldis meðal barna hafi fjölgað bæði hérlendis og erlendis eftir tímabil samkomutakmarkana stjórnvalda.

 „Það getur verið að við séum að sjá einhverjar afleiðingar eftir Covid-19, hins vegar er erfitt að segja það þar sem það er ekki búið að skoða það,“ segir Ólöf Ásta.

Margrét tekur undir með Ólöfu.

„Sú tilgáta, um að Covid-tímarnir séu að hluta til skýringin á aukningu á áhættuhegðun ungs fólks hér, rímar alveg að einhverju leyti við erlendar rannsóknir. Ég veit samt ekki hvort það hefur verið skoðað af einhverri alvöru hérlendis, hver áhrifin hafi verið hér.“

Tilkynningum um áhættuhegðun barna fjölgaði um 31,8% milli áranna.
Tilkynningum um áhættuhegðun barna fjölgaði um 31,8% milli áranna. mbl.is/Hari

Umræðan orðin meira áberandi 

Margrét telur að þessi fjölgun tilkynninga geti að hluta til verið vegna aukinnar umfjöllunar og að það sé meiri vilji hjá fólki til þess að tilkynna um slík tilfelli.

„Vegna þess að umræða og fréttaflutningur hefur verið töluvert mikill um ofbeldi ungs fólks og ofbeldi gegn börnum, þá sé fólk meira tilbúið en áður að tilkynna það þegar það vaknar upp einhver grunur,“ segir Margrét. „Ef fólk er meira tilbúið til þess að tilkynna þá auðvitað fjölgar tilkynningum.“

„Áhættuhegðun ungs fólks, það er svo sterk fylgni á milli hennar og fjölskylduaðstæðna og þá er ég að tala um eftirlit foreldra, tengsl við foreldri og agi á heimilum. Þegar það dregur úr þessu eins og til dæmis eftirliti foreldra, þá má búast við að áhættuhegðun aukist,“ segir Margrét.

Ofbeldið að verða alvarlegra

Hún bendir á að tölur úr gagnasöfnum gefi hins vegar til kynna að ofbeldi meðal barna á Íslandi hafi ekki aukist, þrátt fyrir fjölgun tilkynninga. Margrét undirstrikar að ekki öll ungmenni beiti ofbeldi, heldur sé þetta ákveðinn hópur sem beitir meira og alvarlegra ofbeldi síendurtekið.

Hún telur að nokkrar ástæður geti legið að baki þessu, þar á meðal eftirköst kórónuveirufaraldursins og samfélagsmiðlanotkun.

Hún leggur áherslu á mikilvægi forvarnarstarfs sem beinist að samfélagsmiðlanotkun unglinga og nefnir sem dæmi hvernig best sé að bregðast við þegar ungmenni sjá myndband af einhverjum verða fyrir ofbeldi. „Þau eru ónæm fyrir alvarleika málsins,“ segir Margrét að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka