„Þetta er bara steypuryk, þetta er bara ekkert annað en steypuryk,“ segir Samúel Guðmundsson um rykið sem sest hefur á bíla íbúa í nágrenni við niðurrifssvæði á Kirkjusandi.
Fyrirtæki hans, Dynja ehf., hefur umsjón með niðurrifinu á gamla Íslandsbankahúsinu, áður Sambandshúsinu, við Kirkjusand 2.
Samúel segir að ekkert asbest sé í húsinu sem verið sé að rífa, það efni hafi verið fjarlægt úr húsnæðinu fyrir mörgum árum.
„Asbest var tekið út úr húsinu þegar innréttað var fyrir Íslandsbanka fyrir mörgum árum. Það var allt fjarlægt fyrir löngu og það er búið að fara yfir það með vinnueftirliti og heilbrigðiseftirliti og slíku, það er ekkert asbest í þessu,“ segir Samúel
Á vef Vinnueftirlitsins segir að asbest hafi verið notað sem brunavarnarefni, hitaeinangrun og við iðnað og sé hættulegt heilsu. Notkun þess í dag er bönnuð á Evrópska efnahagssvæðinu.
Spurður um áætluð verklok segir Samúel að samkvæmt verksamningi við verktaka séu verklok áætluð 30. október næstkomandi. Framkvæmdir hafi hins vegar gengið betur en áætlað var og er nú búist við að verklok verði mánuði fyrr en verksamningur gerir ráð fyrir.
Vegna kvörtunar íbúa um rykmengun sem sest meðal annars á bíla þeirra segir Samúel að verið sé að reyna að lágmarka rykmengun eins mikið og hægt er. „Við erum meðvitaðir um kvartanir frá íbúum vegna ryks við niðurrifið. Vélar verktaka eru búnar vatnsúðakerfi til að lágmarka rykmengun eins og tilskilið er fyrir rif á steinsteypu,“ segir Samúel.
„Ekki er mögulegt að koma að fullu í veg fyrir rykmengun frá framkvæmdum sem þessum,“ segir hann og bætir við að verkið sé unnið í góðu sambandi við byggingaryfirvöld, vinnu- og heilbrigðiseftirlit.
„Nokkuð hvass vestanvindur var í gær á verkstað og því hefur ryk eflaust borist meira um svæðið þess vegna,“ segir Samúel.