Þrjú tilboð í Skagann 3X til skoðunar

Skiptastjóri í þrotabúi Skagans 3x leggur áherslu á að mikilvægt …
Skiptastjóri í þrotabúi Skagans 3x leggur áherslu á að mikilvægt sé að ljúka málinu fljótt til að koma í veg fyrir frekara tjón. mbl.is/Sigurður Bogi

Helgi Jóhannesson, skiptastjóri þrotabús Skagans 3X, segir í samtali við mbl.is að þrjú tilboð séu nú til skoðunar í eignir fyrirtækisins.

„Það eru tvö tilboð núna á borðinu í einstakar eignir, síðan þetta eina tilboð í allt,“ segir Helgi og á þar við til­boð frá ís­lensk­um fjár­fest­um sem tek­ur til allra eigna þrota­bús­ins auk fast­eigna þar sem starf­sem­in hef­ur verið hýst en eru ekki í eigu þrota­bús­ins.

Hann leggur áherslu á að mest sé verið að vinna í stóra tilboðinu sem nær yfir allar eignirnar, en að tilboðin í einstakar eignir séu einnig í skoðun.

Vongóður um að fleiri tilboð berist

Helgi vonast til að fleiri tilboð berist og segist hafa heyrt að áhugi sé til staðar hjá fleirum en þegar hafa sett fram tilboð. Hann telur að það sé ákveðin stemning í kringum málið og vonar að fleiri tilboð komi fram á næstunni.

Mikilvægt að klára málið sem fyrst

Skiptastjórinn leggur áherslu á að mikilvægt sé að ljúka málinu fljótt til að koma í veg fyrir frekara tjón. Hann vonar að niðurstaða fáist sem fyrst, þótt ekki sé hægt að segja nákvæma tímasetningu á því.

„Þetta er stórt mál og margir hagsmunir sem tengjast þessu, en því fyrr því betra,“ segir Helgi og bætir við að hraðari niðurstaða sé nauðsynleg fyrir fyrrum starfsfólk Skagans 3x sem hann vonar að fái vinnu aftur ef starfsemin fer í gang á ný.

„Þetta er allt saman unnið eins hratt og hægt er, en margir sem koma að því,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert