Fossvogslaug ekki heldur á áætlun borgarinnar

Fossvogslaug er ekki í áætlun Reykjavíkurborgar eða Kópavogsbæjar.
Fossvogslaug er ekki í áætlun Reykjavíkurborgar eða Kópavogsbæjar.

Uppbygging Fossvogslaugar er ekki á áætlun Reykjavíkurborgar sem stendur. Þetta segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, í samtali við mbl.is. 

Eins og mbl.is greindi frá um helgina er uppbygging Fossvogslaugar ekki heldur á dagskrá Kópavogsbæjar. 

Ármann Kr. Ólafsson, þáverandi bæjarstjóri Kópavogsbæjar, og Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri Reykjavíkurborgar og núverandi formaður borgarráðs, skrifuðu undir viljayfirlýsingu árið 2021 um að halda sameiginlega hönnunarkeppni fyrir sundlaugina. 

Þá sendu sveitarfélögin tvö frá sér tilkynningu árið 2022 þar sem þau undirstrikuðu að sundlaugin yrði að veruleika og yrði staðsett fyrir miðjum Fossvogsdal. 

Ekki tímabær framkvæmd

Dóra segir að efnahagsaðstæður séu þannig að framkvæmdir séu dýrar og þetta sé ekki framkvæmd sem sé tímabært að ráðast í. Borgin forgangsraði öðrum málum ofar en uppbyggingu laugarinnar

„Við vitum að efnahagsumhverfið skapar ekki mikið svigrúm til framkvæmda almennt. Akkúrat núna eru önnur mál í forgangi þar sem verið er að leysa ákveðin vandamál þegar kemur að viðhaldi á leikskólum og skólum. Við erum að setja tugi milljarða í það og þá eru þau mál í forgangi, og mér sýnist staðan vera sú sama í Kópavogi.“

Dóra segir að ekkert formlegt samtal hafi átt sér stað á milli sveitarfélaganna um að leggja verkefnið til hliðar. Hún útilokar þó ekki að verkefnið verði tekið upp á ný þegar svigrúm skapist. 

„Ég sé ekkert til fyrirstöðu fyrir því að ef svigrúm skapast, þá verður það tekið upp aftur og haldið áfram með verkefnið. En við þurfum bara að meta það þegar þar að kemur í samstarfi við Kópavogsbæ,“ segir Dóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka