„Horfum björt fram á veg“

Jón Gunnar Margeirsson einn eigandi og framkvæmdarstjóri Jón og Margeir.
Jón Gunnar Margeirsson einn eigandi og framkvæmdarstjóri Jón og Margeir. mbl.is/Eyþór

Grindvíska fjölskyldufyrirtækið Jón og Margeir hefur unnið að uppbyggingu í Grindavík síðustu mánuði.

„Við vorum að klára á föstudaginn sprunguverkefni út við golfvöll og kirkjugarð þar sem voru einhverjar sex sprungur. Þannig að það er fullt af jákvæðum hlutum að gerast,“ segir Jón Gunnar Margeirsson framkvæmdastjóri og einn af eigendum fyrirtækisins.

Starfsemin gengið vel

Að hans sögn hefur gengið ágætlega að halda starfseminni gangandi síðustu mánuði þrátt fyrir eldvirknina á Reykjanesskaga.

„Við erum auðvitað lánsamir með að við erum með vinnu um allt land að keyra út malbik og fisk. Það eru ekki allir jafn heppnir og við að hafa svona færanlegan rekstur. Þannig að við erum bara bjartir og ætlum að vera það áfram.“

Verkefnin hjá Jón og Margeir eru fjölbreytt, þar með talið fiskflutningur fyrir útgerðarfyrirtæki í Grindavík, malbiksakstur fyrir Colas og jarðvinna í Grindavík og Ölfus og fleira. 

„Það að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni er kostur þegar svona kemur upp.“

Ekki meiri hætta á gosi innan garðar

Jón kveðst bíða eftir því að allt fari í eðlilegt horf á ný svo fyrirtækið og starfsfólk geti aftur starfað alveg frá Grindavík.

„Ég held að framkvæmdanefndin, sem við bindum miklar vonir við, sé búin að fá peninga í ákveðin verkefni svo við horfum bara björt fram á veginn og vonumst eftir að ef annar viðburður kemur upp að hann verði okkur hliðhollur.“

Hann segir ekkert benda til að hættan sé meiri á að næsta gos verði innan bæjarmarkanna.

„Við erum í tengslum við fullt af aðilum hérna og er manni sagt að það sé ekki meiri hætta á gosi innan garða núna en áður fyrr. Vonandi verður það staðan og við getum haldið ótrauð áfram.“

mbl.is/Eyþór

Uppbygging möguleg

Nú er mikil umræða um uppbyggingu bæjarins hver er þín persónulega skoðun á því?

„Ég hef alltaf haft mikla trú á henni. Þetta var ekkert bjart hérna mánudaginn eftir stóra skjálftann í nóvember. Ég og mínu fólki líður afskaplega vel hérna. Hjartað er og verður alltaf hér.“

Þrátt fyrir gríðarlegt tjón á bænum telur hann ekkert vera því í fyrirstöðu að byggja hann aftur upp.

„Ég ætla ekkert að gera lítið úr tjóninu. En ég tel að með jákvæðu hugarfari og samheldni getum við þetta. Samheldnin hefur alltaf verið sterk í þessum bæ. Það hefur ýmislegt gerst á síðustu árum og vonandi koma flest til baka. Ég geri mér grein fyrir því að það komi ekki allir sem hér voru. En þeir sem koma til baka hérna vilja hjálpast að við uppbygginguna.“

Stefnir til baka

Aðspurður segist Jón alveg grjótharður á því að flytja aftur í bæinn þar sem allt hans lífeyri.

„Maður ber auðvitað fullri virðingu fyrir fólki sem er hrædd og ætlar ekki til baka. En ég tel að þegar það fer að byrja einhver uppbygging að fólk mun fara sjá ljósið.“

Að hans sögn hefur reynt á að horfa á eftir endalausri neikvæðari umfjöllun um bæinn.

„Um daginn kom frétt um að það væru að koma peningar í bæinn og bjó það til ákveðna von hjá okkur. En á sama tíma erum við slegin niður af nýjum fréttum og upplýsingum frá Veðurstofunni. Manni finnst að það megi alveg láta þá bíða og sjá hvað gerist. Það er óþarfi að löðrunga okkur aftur og aftur þegar ljósið kviknar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert