Íhugar stofnun flokks og útilokar ekki framboð

Arnar Þór segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að selja sálu …
Arnar Þór segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að selja sálu sína. mbl.is/Eyþór

Arn­ar Þór Jóns­son, fyrr­ver­andi for­setafram­bjóðandi, íhug­ar nú að stofna nýj­an stjórn­mála­flokk og seg­ir að vænta megi ákvörðunar um miðjan ág­úst. Hann úti­lok­ar ekki að fara sjálf­ur í fram­boð.

Þetta seg­ir hann í sam­tali við mbl.is.

„Þetta er svona það sem marg­ir eru eru að ræða við mig og hafa verið að gera síðustu vik­urn­ar. Hún er bara áfram­hald­andi þessi umræða,“ seg­ir hann aðspurður.

Í augna­blik­inu seg­ir hann erfitt að segja hverj­ar lík­urn­ar séu á því að flokk­ur­inn verði stofnaður en vænt­ir þess að ákvörðun muni liggja fyr­ir um miðjan ág­úst.

„Þá tel ég mig verða bú­inn að ræða við nógu marga og kanna lands­lagið nógu vel. Ég held að lands­lagið í ís­lenskri flokkapóli­tík sé al­gjör­lega – ég myndi kalla þetta sviðna jörð,“ seg­ir hann.

Ætlaði fyrst ekki fram en úti­lok­ar það ekki núna

Í for­seta­kosn­ing­un­um hlaut Arn­ar Þór 5,1% fylgi. Á kosn­inga­kvöldi var hann spurður hvort hann teldi að hann myndi bjóða sig fram á næstu árum í nýtt embætti.

„Nei, ég held ekki. Ég stefni ekki að því, en ég á við það að ein­hverj­ir aðrir von­andi taki bolt­ann og hlaupi með hann,” sagði hann þá við mbl.is

Spurður núna hvort að hann hyggst vera í fram­boði fyr­ir nýj­an flokk, ef af hon­um verður, seg­ir hann það óákveðið.

„Ég er bú­inn að eiga þetta sam­tal við sjálf­an mig núna síðustu – hvað eru þetta orðnar – sex vik­ur og ég hef velt því fyr­ir mér hvort að minni bar­áttu sé lokið eða hvort hún sé mögu­lega rétt að hefjast. Það er kannski eðli­legt eft­ir svona erfiða kosn­inga­bar­áttu, eins og þetta for­seta­kjör var, að maður sé dauðþreytt­ur og hugsi: „Ég get ekki haldið áfram“.

En ef að ég geri þetta þá verður þetta gert fyrst og fremst af hug­sjón og ég myndi þá treysta auðvitað á annað fólk. Ég get ekki leng­ur úti­lokað það að ég verði einn af þess­um fram­bjóðend­um,“ seg­ir hann.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn að „tor­tíma sjálf­um sér“

Spurður hvort að hug­sjón­ir hans geti ekki fengið braut­ar­gengi inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins eða Miðflokks­ins þá seg­ir hann að hann hafi gert heiðarlega til­raun til þess að hafa áhrif á stefnu Sjálf­stæðis­flokks­ins en að það hafi ekki verið hægt.

„Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn lýt­ur ekki eðli­leg­um – að ég tel - lýðræðis­leg­um starfs­hátt­um eins og staðan er núna. Og hann er á rangri braut, hann er að tor­tíma sjálf­um sér. Hann ætl­ast til holl­ustu flokks­manna við sig en sýn­ir flokks­mönn­um enga holl­ustu á móti og stýr­ir skip­inu út í eitt­hvað fúa­fen sem þeir eru komn­ir út í,“ seg­ir hann og bæt­ir við að flokk­ur­inn hafi verið að inn­leiða og fram­fylgt sósíal­ískri stefnu.

„Ég segi að þessi flokk­ur sé bú­inn að selja sál­ina sína. Ég hef sagt það og stend við það.“

Arnar Þór Jónsson var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi áður en …
Arn­ar Þór Jóns­son var varaþingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins í Suðvest­ur­kjör­dæmi áður en hann sagði sig úr flokkn­um til að fara í for­setafram­boð. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Útil­ok­ar ekki sam­starf við fólk í Miðflokkn­um

Spurður hvort að mögu­leg­ur flokk­ur hans yrði eðlisólík­ur Miðflokkn­um seg­ir hann að ræt­ur þess flokks séu í Fram­sókn, þó hann sé ekki bú­inn að kynna sér til hlít­ar stefnu Miðflokks­ins.

„Ég vil alls ekki úti­loka það að ég geti átt sam­starf við fólk í Miðflokkn­um eða öðrum flokk­um. En mér finnst rétt á þess­um tíma­punkti að í það minnsta skoðað hvort að sé ástæða til þess að byrja með hreint borð og ræða þetta á fersk­um grunni. Hvað megi gera til end­ur­bóta á þessu sviði.“

Frjáls þjóð í frjálsu landi“

Hvaða hug­sjón­um myndi þessi stjórn­mála­flokk­ur berj­ast fyr­ir?

„Að hér búi frjáls þjóð í frjálsu landi og hann berj­ist gegn útþenslu rík­is­ins og mis­beit­ingu valds – hverskyns mis­beit­ingu á valdi. Flokk­ur­inn berj­ist fyr­ir aðhaldi í rík­is­fjár­mál­um og fyr­ir því að verja auðlind­ir þjóðar­inn­ar og rækta. Þá á ég ekki síst við um auðlind­ina sem er í fólk­inu í land­inu,“ seg­ir hann.

Hann seg­ir átak­an­legt að sjá hvernig komið sé fyr­ir börn­um í mennta­kerf­inu, hvernig staðan sé á vega­kerf­inu og veik staða lög­regl­unn­ar.

„Við eig­um að geta gert miklu bet­ur held­ur en við höf­um verið að gera.“

Alþingi að kvöldi til.
Alþingi að kvöldi til. mbl.is/​Hari

Tel­ur að rík­is­stjórn­in lifi fram á vor

Hann seg­ir að það sé inn­gró­in spill­ing í ís­lensk­um stjórn­mál­um og hana verði með ein­hverju móti að reyna upp­ræta.

„Ég held að það verði best gert með því að það verði ein­hvers kon­ar end­ur­nýj­un á sviði stjórn­mál­anna. Það væri allt í lagi ef það yrðu til fleiri en einn flokk­ur, því fleiri kannski því betra. Þess­ir gömlu flokk­ar eru part­ur af miklu stærra krabba­meini sem er líka rík­i­s­væðing stjórn­mála­flokk­anna.“

Hann tek­ur fram að það yrði á stefnu­skrá flokks­ins að af­nema rík­is­styrki til stjórn­mála­flokka.

„Ef af þessu yrði, að þessi stjórn­mála­flokk­ur yrði stofnaður, þá myndi ég gæta þess að það yrðu ein­hverj­ir mjög hlut­laus­ir menn fengn­ir til þess að hafa um­sjón og ut­an­um­hald um fjár­muni þessa flokks.“

Að lok­um seg­ir hann aðspurður að hann telji að rík­is­stjórn­in lifi fram á vor, þó hann telji er­indi henn­ar vera að þrot­um komið.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert