Íhugar stofnun flokks og útilokar ekki framboð

Arnar Þór segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að selja sálu …
Arnar Þór segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að selja sálu sína. mbl.is/Eyþór

Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, íhugar nú að stofna nýjan stjórnmálaflokk og segir að vænta megi ákvörðunar um miðjan ágúst. Hann útilokar ekki að fara sjálfur í framboð.

Þetta segir hann í samtali við mbl.is.

„Þetta er svona það sem margir eru eru að ræða við mig og hafa verið að gera síðustu vikurnar. Hún er bara áframhaldandi þessi umræða,“ segir hann aðspurður.

Í augnablikinu segir hann erfitt að segja hverjar líkurnar séu á því að flokkurinn verði stofnaður en væntir þess að ákvörðun muni liggja fyrir um miðjan ágúst.

„Þá tel ég mig verða búinn að ræða við nógu marga og kanna landslagið nógu vel. Ég held að landslagið í íslenskri flokkapólitík sé algjörlega – ég myndi kalla þetta sviðna jörð,“ segir hann.

Ætlaði fyrst ekki fram en útilokar það ekki núna

Í forsetakosningunum hlaut Arnar Þór 5,1% fylgi. Á kosningakvöldi var hann spurður hvort hann teldi að hann myndi bjóða sig fram á næstu árum í nýtt embætti.

„Nei, ég held ekki. Ég stefni ekki að því, en ég á við það að ein­hverj­ir aðrir von­andi taki bolt­ann og hlaupi með hann,” sagði hann þá við mbl.is

Spurður núna hvort að hann hyggst vera í framboði fyrir nýjan flokk, ef af honum verður, segir hann það óákveðið.

„Ég er búinn að eiga þetta samtal við sjálfan mig núna síðustu – hvað eru þetta orðnar – sex vikur og ég hef velt því fyrir mér hvort að minni baráttu sé lokið eða hvort hún sé mögulega rétt að hefjast. Það er kannski eðlilegt eftir svona erfiða kosningabaráttu, eins og þetta forsetakjör var, að maður sé dauðþreyttur og hugsi: „Ég get ekki haldið áfram“.

En ef að ég geri þetta þá verður þetta gert fyrst og fremst af hugsjón og ég myndi þá treysta auðvitað á annað fólk. Ég get ekki lengur útilokað það að ég verði einn af þessum frambjóðendum,“ segir hann.

Sjálfstæðisflokkurinn að „tortíma sjálfum sér“

Spurður hvort að hugsjónir hans geti ekki fengið brautargengi innan Sjálfstæðisflokksins eða Miðflokksins þá segir hann að hann hafi gert heiðarlega tilraun til þess að hafa áhrif á stefnu Sjálfstæðisflokksins en að það hafi ekki verið hægt.

„Sjálfstæðisflokkurinn lýtur ekki eðlilegum – að ég tel - lýðræðislegum starfsháttum eins og staðan er núna. Og hann er á rangri braut, hann er að tortíma sjálfum sér. Hann ætlast til hollustu flokksmanna við sig en sýnir flokksmönnum enga hollustu á móti og stýrir skipinu út í eitthvað fúafen sem þeir eru komnir út í,“ segir hann og bætir við að flokkurinn hafi verið að innleiða og framfylgt sósíalískri stefnu.

„Ég segi að þessi flokkur sé búinn að selja sálina sína. Ég hef sagt það og stend við það.“

Arnar Þór Jónsson var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi áður en …
Arnar Þór Jónsson var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi áður en hann sagði sig úr flokknum til að fara í forsetaframboð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útilokar ekki samstarf við fólk í Miðflokknum

Spurður hvort að mögulegur flokkur hans yrði eðlisólíkur Miðflokknum segir hann að rætur þess flokks séu í Framsókn, þó hann sé ekki búinn að kynna sér til hlítar stefnu Miðflokksins.

„Ég vil alls ekki útiloka það að ég geti átt samstarf við fólk í Miðflokknum eða öðrum flokkum. En mér finnst rétt á þessum tímapunkti að í það minnsta skoðað hvort að sé ástæða til þess að byrja með hreint borð og ræða þetta á ferskum grunni. Hvað megi gera til endurbóta á þessu sviði.“

Frjáls þjóð í frjálsu landi“

Hvaða hugsjónum myndi þessi stjórnmálaflokkur berjast fyrir?

„Að hér búi frjáls þjóð í frjálsu landi og hann berjist gegn útþenslu ríkisins og misbeitingu valds – hverskyns misbeitingu á valdi. Flokkurinn berjist fyrir aðhaldi í ríkisfjármálum og fyrir því að verja auðlindir þjóðarinnar og rækta. Þá á ég ekki síst við um auðlindina sem er í fólkinu í landinu,“ segir hann.

Hann segir átakanlegt að sjá hvernig komið sé fyrir börnum í menntakerfinu, hvernig staðan sé á vegakerfinu og veik staða lögreglunnar.

„Við eigum að geta gert miklu betur heldur en við höfum verið að gera.“

Alþingi að kvöldi til.
Alþingi að kvöldi til. mbl.is/Hari

Telur að ríkisstjórnin lifi fram á vor

Hann segir að það sé inngróin spilling í íslenskum stjórnmálum og hana verði með einhverju móti að reyna uppræta.

„Ég held að það verði best gert með því að það verði einhvers konar endurnýjun á sviði stjórnmálanna. Það væri allt í lagi ef það yrðu til fleiri en einn flokkur, því fleiri kannski því betra. Þessir gömlu flokkar eru partur af miklu stærra krabbameini sem er líka ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna.“

Hann tekur fram að það yrði á stefnuskrá flokksins að afnema ríkisstyrki til stjórnmálaflokka.

„Ef af þessu yrði, að þessi stjórnmálaflokkur yrði stofnaður, þá myndi ég gæta þess að það yrðu einhverjir mjög hlutlausir menn fengnir til þess að hafa umsjón og utanumhald um fjármuni þessa flokks.“

Að lokum segir hann aðspurður að hann telji að ríkisstjórnin lifi fram á vor, þó hann telji erindi hennar vera að þrotum komið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert