Kæra vararíkissaksóknara

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn hjálparsamtakana Solaris hefur kært Helga Magnús Gunnarssom, vararíkissaksóknara vegna ummæla sem hann lét fjalla um innflytjendur, flóttafólk og samtökin sömuleiðis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Vísað er til ummæla sem Helgi lét falla 16. og 19. júlí.

„Samtökin telja að ummælin feli meðal annars í sér rógburð og smánun vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða sem og ærumeiðingar samkvæmt almennum hegningarlögum.

Samtökin hafa tilkynnt sömu ummæli vararíkissaksóknara með formlegum hætti til ríkissaksóknara með tilliti til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og almennra hegningarlaga,“segir í tilkynningunni.

Jafnframt eru ummæli Helga sögð alvarleg vegna stöðu hans en þau grafi undan trausti til embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins í heild. Þá hafi verið lögð fram formleg kvörtun til ríkissaksóknara vegna ummælana. 

Sakaður um að ala á sundrung og fordómum

Vararíkissaksóknari var nýlega sakaður um að ala á sundrung og fordómum af Oddi Ástráðssyni lögmanni.

Sagði Oddur Helga vera að „heim­færa brot eins manns yfir á hóp sem hef­ur ekk­ert með málið að gera, og með því er hann að ala á sundr­ung og for­dóm­um.“

Gagnrýni Odds kemur til vegna ummæla Helga vegna dóms yfir Mohamad Kourani sem féll fyrir stuttu. Kourani hafði staðið í hótunum við Helga en hann var meðal annars sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og stórfellda líkamsárás.

Helgi sagði Ísland vera að breytast, hingað til lands væru að koma menn sem hafi önnur viðhorf til náungans, laga, reglna og mannréttinda.

Solaris berjist fyrir óheftum aðgangi fólks óháðum hugsanlegum tengslum við öfga- og hryðjuverkasamtök

Vararíkissaksóknari svaraði Oddi í Facebook-færslu þar sem hann sakaði Odd um dylgjur og atvinnuróg. Þá blandaði hann einnig Solaris samtökunum í málið.

„Þessi lögmaður, sem mun vera son­ur Svandís­ar Svafars­dótt­ur ráðherra VG, virðist kippa í kynið varðandi af­stöðu til inn­flytj­enda­mála og mun, sam­kvæmt því sem mér er sagt, hafa af­komu sína að nokkru eða öllu und­ir vinnu fyr­ir eða í kring um inn­flytj­enda­mál þar á meðal í þágu Solar­is sem berst hörðum hönd­um fyr­ir nær óheft­um aðgangi fólks frá miðaust­ur­lönd­um að Íslandi,að því er virðist án þess að láta sig varða bak­grunn þess fólks og hugs­an­leg tengsl við öfga- og hryðju­verka­sam­tök,“ skrifaði Helgi.

Solaris svaraði í kjölfarið orðum Helga og sögðu hann gera sig vanhæfan. Þá eigi orð hans ekki við rök að styðjast en þau beri að fordæma.

„Með um­mæl­um sín­um gef­ur vara­rík­is­sak­sókn­ari til kynna að Solar­is sam­tök­in teng­ist með ein­hverj­um hætti ein­stak­ling­um sem hafa tengsl við öfga- og hryðju­verka­sam­tök og að fólk sem hingað kem­ur í leit að skjóli og vernd teng­ist upp til hópa slík­um hóp­um,“ sagði í til­kynn­ingu frá samtökunum vegna orða Helga. Hvöttu samtökin ríkissaksóknara til þess að taka ummælin til skoðunar og hafa nú lagt fram kæru vegna þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert