Fjöldi umsagna hafa borist samráðsgátt vegna frumvarps til laga um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja. Eru þar meðal annars gerðar athugasemdir við útfærslu gjaldsins og þá staðreynd að það muni leggjast jafnt á minnstu bifreiðar og stóra og þunga pallbíla, líkt og Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur áður bent á.
Þá er bent á vandamál sem geta komið upp við rukkun ferðamanna sem koma á eigin bílum til landsins og varðandi löggildingu ökumæla, sem og hvort sama gjald eigi að vera á bifreiðar og bifhjól
Kílómetragjaldið á að taka gildi um næstu áramót og á að koma í stað bensíngjalds.
Með frumvarpinu er áformað að greitt verði fyrir fjölda ekinna kílómetra í samræmi við þyngd ökutækja óháð flokki.
Margar umsagnir fordæma það að lagt sé til að kílómetragjald verði föst krónutala fyrir hvern ekinn kílómetra af ökutækjum með leyfða heildarþyngd 3.500 kg. eða minna.
Það sé jafnvel ósanngjarnt að eyðsluminni bílar borgi jafn hátt kílómetragjald og eyðslumeiri bílar, af því að þeir séu báðir undir 3,5 tonnum.
„Slit á vegum eykst með öxulþunga í veldisvexti og skatturinn verður að taka mið af því. Mengun vex einnig talsvert útfrá þyngd ökutækis, þannig það er engan vegin sanngjarnt að Ford F150 borgi sama skatt og gamall Yaris,“ segir í einni umsögninni.
„Það er ekki beinlínis í anda umhverfisverndar að lækka gjöld á ameríska bensínháka og hækka í staðinn gjöld á sparneytna bíla,“ segir í einni umsögninni.
Rökin sem stjórnvöld bera fyrir einu og sama gjaldinu á bíla undir 3,5 tonnum eru að þeir bílar valdi svipuðu sliti og niðurbroti vega, meðan þyngri bílar hafi margfalt meiri áhrif.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) segir að rásir í malbiki á fjölförnum þjóðvegum í þéttbýli beri þess merki að bílar sem vegi 3,5 tonn slíti vegina meiri en léttari bílar. Því vill FÍB að fyrirhugað kílómetragjald taki mið af þyngd og orkugjafa hvers og eins bíls.
Ef leyfð heildarþyngd ökutækis er umfram 3.500 kg. mun fjárhæð kílómetragjalds taka mið af heildarþyngd út frá útreikningi á tilteknum þyngdarstuðli. Gjaldið fer því hækkandi með aukinni þyngd tækisins.
„Ég á mínum tveggja tonna bíl með 5.7 lítra vél sem eyðir 25L/100km kem alveg svakalega vel út úr þessari breytingu, en einstæð móðir á 900kg Yaris sem eyðir 6L/100km mun borga talsvert meira en hún gerir í dag,“ segir í einni umsögninni.
Í nokkrum umsögnum er því velt upp hvernig rukka eigi kílómetragjald hjá ferðamönnum sem komi með eigin bíla til landsins með farþegaferjunni Norrænu og fyrir fjallabíla sem ekið er á snjó.
Tvær umsagnir eru um kílómetragjald á bifhjólum og í þeim haldið fram að það eigi að vera lægra en á bifreiðum.
Því er einnig velt upp hvernig setja eigi upp löggilta mæla í bifreiðar þar sem allir eknir kílómetrar séu skráðir.
„Fróðlegt væri að vita hvernig nýja fyrirkomulagið á að virka fyrir fólk á landsbyggðinni, sem er knúið að keyra marga kílómetra til að komast í vinnu, til læknis, í innkaup, eða í íþróttatíma fyrir börn,“ segir í einni umsögninni.