Fyrrverandi dómsmálaráðherra segir það óljóst hvaða undanþága gerði afbrotamanninum Mohamad Th. Jóhannessyni, áður Kourani, kleift að breyta kenninafni sínu.
Erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi geta sótt um nafnbreytingu á grundvelli laga um mannanöfn.
Aftur á móti lúta kenninöfn, þ.e. nöfn eins og Jónsdóttir eða Guðrúnarson, strangari skilyrðum og þarf að sýna fram á að ættingi í beinan legg hafi haft nafnið skráð í þjóðskrá við gildistöku mannanafnalaga haustið 1991 – samkvæmt upplýsingum á vef Þjóðskrár.
Slíkt á greinilega ekki við um Mohamad, sem er frá Sýrlandi og kom hingað á grundvelli dvalarleyfis árið 2018.
En það eru vissulega undantekningar frá þessum lögum og greindi Vísir frá því í viðtali við deildarstjóra hjá Þjóðskrá að Kourani hefði þurft að breyta nafni sínu á grundvelli lagalegrar undanþágu, þótt ekki hafi komið fram hver sú undanþága væri.
Sigríður Á. Andersen, lögmaður og fyrrverandi dómsmálaráðherra, dregur þá ályktun að Mohamad fengið undanþágu frá 16. gr. mannanafnalaga er varðar nöfn þekktra afbrotamanna. En jafnvel það myndi ekki ná nokkurri átt.
„Það er ekki sjálfsagt að það eigi að vera jafn auðvelt að skipta um nafn og kenninafn,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is en hún vakti fyrst máls á þessu á Facebook.
Í athugasemdum við lagafrumvarp, sem núgildandi lög byggja m.a. á, segir að heimila ætti kenninafnsbreytingu ef nafn er „sérstaklega tengt þekktum afbrotamanni“ væri „auðsæilega gild ástæða“ til að heimila nafnbreytingu. Sigríður segir athugasemdirnar gefa lagaviljann til kynna. Þar kemur einnig fram að rétt þyki að ákvæði greinarinnar yrði túlkað „þröngt“.
En Kourani hét ekki bara sama nafni og þekktur afbrotamaður, heldur er hann sjálfur afbrotamaðurinn og var fyrir vikið dæmdur í átta ára tukthúsvist.
„Það er alveg ljóst af umfjölluninni í athugasemdunum að lagaviljinn stóð ekki til þess að leyfa fólki að flýja sína sögu,“ segir Sigríður.
Hún kveðst samtekkert endilega þeirrar skoðunar að breyta ætti lögunum. Að hennar mati eru þau skýr.
„En ef það er orðið þannig að framkvæmdin er orðin svona losaraleg, þá finnst mér einboðið að menn taki allan lagabálkinn til heildarendurskoðunar.“
Í raun er enginn tæmandi listi af undantekningum. Samkvæmt lögum mega allir 18 ára og eldri taka upp nýtt kenninafn „ef telja verður að gildar ástæður mæli með því“.
Soffía Svanhildar- Felixdóttir, deildarstjóri þjónustu og skráningar hjá Þjóðskrá, segir að rökstuðningur umsækjanda sé metinn hverju sinni.
„Þarna þurfa að vera gildar ástæður, það þarf að vera rökstuðningur á bak við hvert tilvik og við köllum eftir slíkum rökstuðningi og gögnum,“ segir Soffía.
Í framkvæmd undanþáguákvæðis sé stuðst við leiðbeiningar frá dómsmálaráðuneytinu.
„Það þarf að beita því þröngt. Það þurfa að vera þessar „gildu ástæður“ en auðvitað er það að einhverju leyti huglægt mat. Það er ekki talið upp í lögunum hvaða gildu ástæður þetta eru.“
En Soffía kveðst ekki geta upplýst um einstök mál, og því ekki gefið upp rökstuðninginn á bak við upptöku nafnsins Mohamad Th. Jóhannesson.
Það er því enn óljóst hvers vegna Mohamad fékk að breyta nafninu sínu.