„Mér líður ömurlega“

Sigurður Enoksson, bakarameistari og eigandi Héraðsstubbs bakarí í Grindavík.
Sigurður Enoksson, bakarameistari og eigandi Héraðsstubbs bakarí í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar ríkið er búið að kaupa alla íbúana út úr bænum, hvernig eigum við þá að geta lifað?“ segir Sigurður Enoksson, betur þekktur sem Siggi bakari, eigandi Hérastubbs bakarí í Grindavík aðspurður um framtíð rekstursins.

Náð að opna fimm sinnum

Siggi hefur átt bakaríið í næstum þrjá áratugi. Hinn 10. nóvember voru 13 á launaskrá, en í dag eru bara feðgarnir tveir eftir. Síðan í nóvember hefur hann bara getað opnað bakaríið fimm sinnum.

„Þetta er sálardæmi hjá okkur að opna. Okkur líður miklu betur hér en heima hjá okkur.“

Síðasta opnun gekk langt umfram væntingar hans Sigga, en fyrir það hafði verið erfitt að sjá tilganginn með þessu. „Þegar ég var að opna þessi nokkur skipti áður þá var maður bara að éta upp sinn eigin pening. Það var ekkert að gera hérna til þess að þú fáir laun og svoleiðis.“

„Mér líður ömurlega“

Hvernig er að lifa í svona óvissu?

„Ég get sagt ykkur það að mér líður ömurlega. Maður heldur að maður hefur það svona fínt en svo er bara allt í rugli. Við erum ennþá að bíða. Það er alltaf sagt að við eigum að halda í vonina en hún fer dvínandi.“

Í kjölfar atburðarrása þann 10. nóvember flúði fjölskyldan úr Grindavík í Kópavoginn og hefur verið búsett þar síðan ásamt fjölda Grindvíkinga. Að hans sögn er framtíðar búseta fjölskyldunnar algjörlega háð framtíð bakarísins en í byrjun október verður húsið hans afhent.

Hann segir óvissuna, um hvenær næsta gos muni skelli á, valda ugga og hefur hann og fjölskyldan ekki treyst sér til þess að dvelja í bænum á meðan sú óvissa ríkir.

„Það eru bara einhverjir þverhausar eftir hérna sem búa enn í bænum og ætla sér ekkert að fara. Það er svo fyndið með það að þetta eru bara karlarnir einir eftir. Konurnar og börnin eru einhvers staðar annars staðar og ætla sér ekkert að vera hérna.“

Siggi bakari og sonur hans Steinþór.
Siggi bakari og sonur hans Steinþór. mbl.is/Eyþór

Af hverju ekki keypt út?

„10. júlí var talað við fólk í Grindavíkurnefndinni og við sögðum að við vildum uppkaup á fyrirtækjunum okkar eins og með íbúðarhúsnæði. Þá kom þetta fólk af fjöllum og sagðist ekki vita af þessari kröfu.“

Hans mat er að það hafi verið hlutverk bæjarstjórnar Grindavíkur að upplýsa nefndina um þessa kröfu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Aðspurður segist hann vilja fá húsnæðið keypt. Þá hafi hann þann möguleika að geta opnað annars staðar eða hætta rekstrinum.

„Ég er búin að missa af þremur tækifærum á höfuðborgarsvæðinu að fara með bakaríið þangað. Ég er ekki nógu efnaður til þess, en ef ég gæti fengið einhvern pening úr þessu væri ég farinn.“

„Þú ert ég og ég skal vera þú“

Aðspurður segist hann ekki sjá hvort það sé nokkur framtíðarsýn hjá stjórnvöldum með uppbyggingu á bænum.

„Þetta verður forvitnilegt að sjá hvað þau geri með alla þá innviði sem eru hér. Þessi íbúðarhúsnæði sem þau hafa keypt, ég er ekkert viss um að þau ætli að fara gera við þau.“

Einnig kveðst hann ekki skilja hvernig launastuðningur ríkisins muni getað bjargað fyrirtækjum. 

„Þessi ríkisstyrkur er bara skítur á priki. Þú ert kannski með einhverja veltu fyrir 10 til 15 milljónir og færð svo styrk upp á 4 til 5 hundrað þúsund. Ég hef oft sagt það við yfirvöld, skiptum um pláss. Þú ert ég og ég skal vera þú. Hvað ætlar þú að gera? Þau myndu gera það sama og við. Ef við værum með ráðherra sem ætti hér heima er ég viss um að það væri meiri vissa um framtíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert