Handtökuskipun vegna tilraunar til manndráps hefur verið gefin út á hendur tveimur mönnum sem réðust á íslenska konu og fjölskyldu hennar á Krít fyrr í mánuðinum.
Þá hafa krítverskir miðlar birt myndskeið sem sýnir upphafið af árásinni.
Hinn grísk-kanadíski Emmanuel Kakoulakis, 49 ára, hefur legið þungt haldinn á spítala eftir að hópur Krítverja réðst á hann og fjölskyldu hans á bar á Heraklíon á grísku eyjunni Krít í síðustu viku.
Eiginkona Emmanuels, Yana Sana, er íslenskur ríkisborgari og varð einnig fyrir árásinni auk barna sinna þriggja, samkvæmt umfjöllun DV.
Lögreglan hefur, með aðstoð fjölskyldunnar, borið kennsl á tvo gerendur, 31 árs mann frá Mýlópótamós og einn 32 ára mann frá sveitarfélaginu Malevízi.
Héraðssaksóknari í Heraklíon hefur nú gefið út handtökuskipanir á hendur þeim en þó á eftir að bera kennsl á tvo menn til viðbótar.
Patrís greinir frá því að handtökuskipun hafi verið gefin út og kveðst hafa heimildir fyrir því að mennirnir verði ákærðir fyrir tilraun til manndráps.
Cretalive segir að lögreglan hafi upprunalega ákært fyrir líkamsárás en þegar málið var sent til héraðssaksóknara hafi verið ákveðið að ákæra einnig fyrir tilraun til manndráps.
Í samtali við gríska fjölmiðla í síðustu viku sögðu konan og synir hennar frá atburðarrásinni. Nú hafa miðlar birt myndskeið úr öryggismyndavélum, sem lögreglan hefur m.a. stuðst við.
Svo virðist sem maður úr stórum hópi Krítverja hafi rekið logandi sígarettustubb á höndina á Emmanuel, hugsanlega óvart, þegar sá síðarnefndi gekk fram hjá.
Þá á Emmanuel að hafa snúið sér að Krítverjanum og brýnt fyrir honum að fara varlega, en fjölskyldan tekur sérstaklega fram að hann hafi gert það á vinalegan hátt.
Út frá því munu mennirnir hafa reiðst og þá hófust barsmíðarnar fyrir utan barinn.
Íslenska konan og 14 ára dóttir hennar reyndu að stöðva árásarmennina er þeir veittu föðurnum högg á höfuð og búk. Á endanum mættu viðbragðsaðilar og þrjótarnir flúðu vettvang. Á myndum má sjá blóðuga stétt eftir líkamsárásina. Fjölskyldan var öll flutt á spítala en verstu áverkarnir voru á Emmanuel.
Samkvæmt Cretalive voru húsleitir framkvæmdar í Mýlópótamós í morgun, þar sem einn hinna grunuðu er talinn búa. Lögreglan leitaði einnig í sama húsi morguninn eftir líkamsárásina.
Þetta mál er eitt af fjölmörgum sem komið hafa upp á eyjunni í sumar og hafa margir lýst áhyggjum af ofbeldisfaraldrinum sem hefur skekið eyjuna. 16 ára drengur varð einnig fyrir líkamsárás sömu nótt og ráðist var á umrædda fjölskyldu en málin eru í raun ótengd.
Eyjan er afar vinsæll ferðamannastaður og fara fjölmargir íslenskir ferðamenn þangað ár hvert. Ferðamálaráðherra Grikklands er meðal þeirra sem hefur sent fjölskyldunni kveðju.