Óskiljanleg ákvörðun skólayfirvalda

Björn segir óheillaskref hafa verið stigið með afnámi samræmdu prófanna.
Björn segir óheillaskref hafa verið stigið með afnámi samræmdu prófanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mikið talað í staðinn fyrir að skoða hverjir eru að standa sig og af hverju þeir eru að standa sig,“ segir Björn Pétursson, fyrrverandi skólastjóri Melaskóla, um málflutning Kennarasambands Íslands (KÍ) og mennta- og barnamálaráðherra.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segist hann sakna þess að KÍ leggi meiri áherslu á beinskeyttari umræðu um lestrarvandann í íslenskum grunnskólum og hvað sé hægt að gera.

„Menn tóku þann pól í hæðina fyrir allmörgum árum að hugsa númer eitt tvö og þrjú um líðan nemenda í skólum. Og það er gott per se, að nemendum líði vel. En nemendum líður vel í skóla ef þeir hafa kennara sem sýna þeim áhuga, mæta vel til starfa og hafa það til að bera að hvetja nemendur og hrósa þeim fyrst og fremst fyrir það að þeir séu að reyna sitt besta. Það þarf mannauð í slíkt,“ segir Björn.

Foreldrar og börn þurfa að vita hvar þau standa

Björn hefur víðtæka reynslu úr menntakerfinu en hann starfaði enn fremur sem kennari, skrifstofustjóri og aðstoðarskólastjóri við Melaskóla. Tók hann einnig við starfi skólaliða að loknu starfi sínu sem skólastjóri.

Hann segir einkunnakerfið í dag óljóst. Telur hann mikilvægt að innleiða samræmt námsmat milli grunnskóla og matskvarða sem sé skýr en jafnframt uppbyggilegur, ekki síst þegar kemur að einkunnagjöf meðal yngstu barnanna.

„Foreldrar og börn þurfa að vita hvar þau standa. Alltaf á þetta náttúrulega að vera á jákvæðum nótum, ekki síst þegar börn eru að byrja í skóla,“ segir Björn og heldur áfram:

„Það sem ég held að menn séu að óttast er að þetta verði eins og í eldgamladaga þegar það voru tossabekkir og svoleiðis – sem var slæmt. En það er engum greiði gerður með því að láta ekki foreldra og nemendur vita hver staðan er.“

Björn segir mikilvægt að gera kröfu til barna.
Björn segir mikilvægt að gera kröfu til barna. mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég skil ekki af hverju“

Eins og Morgunblaðið og mbl.is hafa greint frá hyggjast stjórnvöld leggja niður samræmd könnunarpróf, sem þó hafa ekki verið lögð fyrir síðustu þrjú ár, fyrir fullt og allt.

Nýtt námsmat, sem leysa á prófin af hólmi, er enn í þróun og ljóst að það verður ekki fullbúið að hálfu ári liðnu, eins og ráðuneytið fullyrðir þó í samráðsgátt. Raunar er alls óljóst hvenær það verður tekið í gagnið að fullu.

Björn segir þetta óheillaskref.

„Ég skil ekki af hverju. Bara engan veginn. Þegar það voru samræmd próf þegar ég var skólastjóri þá fengum við að vita hvar við stóðum gagnvart landsmeðaltalinu. Ég sé ekki glæpinn í því. [...] En ég sé hins vegar glæp við það að foreldrar og nemendur séu ekki upplýstir um sína stöðu.“

Árangurinn lét ekki á sér standa

Rifjar hann einnig upp þegar skólar á Suðurnesjum komu illa út úr samræmdu prófunum eitt árið.

„Það sem þeir gerðu var að þeir spýttu í lófana, tóku sér tak og árangurinn – hann lét ekki á sér standa,“ segir Björn.

Bætir hann við að Vestmannaeyingar hafi einnig gripið til ráðstafana þegar lesskilningur barna fór hrakandi þar og vísar til lestrarátaksins Kveikjum neistann sem þá var ráðist í og hefur skilað góðum árangri.

Aðhald fer minnkandi

Að mati Björns er mikvilvægt að fyrstu ár barna í grunnskóla séu uppbyggileg. Reynslan sýni aftur á móti að aðhald með börnum, sérstaklega með drengjum, minnki umtalsvert hjá foreldrum þegar þeir séu komnir í fimmta bekk. Þá upplifi margir nemendur ekki tilgang í því að standa sig vel í námi.

„Þetta skiptir kannski ekki máli. Ég man þegar samræmdu prófin voru, þá voru skólarnir mikið á tánum. Kannski fór það út í öfgar, kannski ekki. Mér er minnisstætt að samræmdu prófin voru virkilega einu prófin sem sendu skilaboð til foreldra um hvernig börnin stóðu.“

Hann segir mikilvægt að gera kröfu til barna. „Málið er það að börn – það er alveg sama hvar þau eru í samfélaginu, þau þurfa að standa sig. Ef þú ert að fara á fótboltaæfingu eða píanóæfingu – þú ert ekki í símanum á meðan. Einu kröfurnar og lykilatriði í öllu námi barna er að hver og einn geri sitt besta.“

Börn skortir æfingu í lestri

Að sögn Björns hefur lestrarkennsla í skólum tekið miklum breytingum undanfarin ár. „Af hverju er lesskilningur slæmur? Það er af því að það vantar æfinguna.“

Aðspurður segir hann það hlutverk bæði foreldra og skólakerfisins að passa upp á þetta. Gott samstarf heimila og skóla sé algjört lykilatriði í skólastarfi, hvort sem um sé að ræða grunn- eða framhaldsskóla.

„Í áratugi var lestrarkunnátta Íslendinga góð. Ég geri mér grein fyrir því að á undanförnum árum séu svo margir erlendir nemendur að koma – við verðum að horfast í augu við það, við verðum að setja peninga í skólann til þess að geta tekið vel á móti þeim nemendum. Þetta snýst voða mikið um peninga að öðru leytinu, en að hinu leytinu um þessa þjálfun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert