Segir aðferðafræði Seðlabankans ekki að virka

Vilhjálmur Birgisson kallar eftir því að Alþingi boði komu sína …
Vilhjálmur Birgisson kallar eftir því að Alþingi boði komu sína aftur til vinnu og fari yfir þá alvarlegu stöðu sem sé að teiknast upp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins, segir nýjustu verðbólgutölur staðfesta „svo ekki verði um villst“ að aðferðafræði Seðlabankans um að halda vöxtum í landinu í tæpum 10% sé ekki að virka. 

„Það er alveg orðið deginum ljósara,“ segir hann í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við tilkynningu frá Hagstofu Íslands þar sem fram kemur að tólf mánaða verðbólga mælist nú 6,3% og hækk­ar um 0,46% frá fyrri mánuði, en þá mæld­ist hún 5,8%.

Þá segir hann ótrúlegt að stjórnmálamenn séu ekki búnir að boða komu sína aftur til vinnu með það að markmiði að bregðast við alvarlegri stöðu. 

Forsendur hás vaxtastigs eigi ekki lengur við

„Þetta er ekki eðlilegt,“ ítrekar Vilhjálmur og segir ástandið alvarlegt. Nú horfi hann til næsta stýrivaxtaákvörðunardags, sem áætlaður er 23. ágúst, og velti fyrir sér því sem hefur gerst. Spurður hvort hann eigi von á að Seðlabankinn lækki stýrivexti í ágúst svarar hann:  

„Það sem hefur gerst núna er að það er búið að semja á nánast öllum íslenskum vinnumarkaði um afar hófstillta kjarasamninga til næstu fjögurra ára. Á það jafnt við almenna vinnumarkaðinn, ríki og sveitarfélög. Það er búið að fara í einu og öllu eftir því sem Seðlabankinn bað um.“

Þá segir hann liggja fyrir að samdráttur hafi orðið í komu ferðamanna. Ofan á það liggi fyrir að hagvöxtur fyrir árið 2022 hafi verið í kringum 9%, hagvöxtur hafi lækkað niður í 4% árið 2023 og nú geri menn ráð fyrir að hagvöxtur verði jafnvel í neikvæður. 

„Þannig að allar þessar forsendur sem Seðlabankinn hefur verið að benda á að séu ástæður þess að hann þurfi að halda uppi háu vaxtastigi, þær eiga ekki við lengur. Ég veit ekki hvað þarf meira til og ég tel bara mjög brýnt að Seðlabankinn grípi til róttækra aðgerða í formi þess að lækka hér stýrivexti umtalsvert í ágúst.“ 

Tilraunaverkefni sem ekki verði reynt aftur ef illa fer

Eins og fram kemur hér að ofan hefur verið gengið frá kjarasamningum til næstu fjögurra ára á stórum hluta íslensks vinnumarkaðar. Grunnurinn að umræddum samningum byggist á því að verðbólga í landinu gangi hratt niður og að vaxtakjör fari samhliða niður þannig að ráðstöfunartekjur fólks aukist.

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af ákvæðum í kjarasamningum sem tengjast verðbólgutölum beint svarar Vilhjálmur. 

„Það segir sig algjörlega sjálft að þetta verkefni okkar, um að ganga frá kjarasamningum til langs tíma á grunni þess sem Seðlabankinn hefur verið að gera kröfu um að við myndum gera, þetta er tilraunaverkefni. Þetta er tilraunarverkefni um það að allir aðrir taki þátt. Allir, ekki bara sumir.

Því ef það ekki tekst, að ná niður verðbólgu hér og búa hér við vaxtaumhverfi eins og þekkist í þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við, þá verður þessi tilraun aldrei reynd aftur. Því þá erum við bara búin að sýna það og sanna að það skiptir ekki máli þó verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins spili saman og gangi frá hófstilltum samningum ef að það hefur síðan engin áhrif.“

Þá segir hann ljóst að fólk muni ekki skrifa undir slíka samninga. 

Ótrúlegt að stjórnmálastéttin sé enn í fríi

„Allt samfélagið í heild sinni er að líða fyrir þessa okurvaxtastefnu. Einu aðilarnir sem raunverulega græða eru viðskiptabankarnir þrír og fjármagnseigendur. Þetta virðist alltaf vera lenskan í íslensku samfélagi, að standa vörð um þá sem eiga fjármagnið á Íslandi.“

Þessu til viðbótar segir hann ekki að heyra annað en að staða íslensku flugfélaganna sé mjög alvarleg. Hann hafi því miklar áhyggjur af stöðunni. „Ég ætla fúslega að viðurkenna það.

Það þarf eitthvað róttækt að gerast í íslensku samfélagi og það er ótrúlegt að stjórnmálastéttin í heild sinni skuli hreinlega ekki vera búin að boða komu sína aftur til vinnu og menn fari yfir þessa alvarlegu stöðu sem er að teiknast upp í íslensku samfélagi.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert